Southampton skellti West Ham

Dusan Tadic fagnar marki sínu í dag.
Dusan Tadic fagnar marki sínu í dag. AFP

Southampton sigraði West Ham, 3:0, á Ólympíuleikvanginum í London í 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Southampton er með átta stig í 10. sæti en West í því 18. með þrjú stig.

Sóknarmaðurinn Charlie Austin kom gestunum frá Southampton yfir þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Hann skoraði með góðu vinstri fótar skoti eftir sendingu Ryan Bertrand og staðan 1:0 að loknum fyrri hálfleik.

Dusan Tadic kom gestunum í tveggja marka forystu um miðjan seinni hálfleik. Hann fékk sendingu frá Austin, sólaði Adrian í marki West Ham og lagði boltann í markið. 

Heimamenn sóttu talsvert en gestirnir voru hættulegri í sínum sóknum. Varamaðurinn Ward-Prow­se gulltryggði 3:0-sigur Southampton með marki í uppbótartíma.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu:

90. Leiknum er lokið með öruggum sigri Southampton.

90. Gestirnir bæta þriðja markinu við og gulltryggja sigurinn. Varamaðurinn Ward-Prowse skorar eftir sendingu frá Davis og 3:0-sigur Southampton í höfn.

88. Gestirnir eru nálægt því að bæta þriðja marki sínu við. Hojbjerg með hörkuskot eftir sendingu frá Romeu en Adrian ver vel.

78. Zaza nær skoti úr teignum eftir að Forster í marki Southampton kýldi boltann þangað. Van Dijk, varnarbuffið í liði Southampton, bjargaði á línu.

62. Southampton skorar annað mark leiksins og kemst í 2:0 forystu. Að þessu sinni skoraði vængmaðurinn Dusan Tadic. Hann fékk sendingu frá Charlie Austin, sólaði Adrian í marki heimamann og lagði boltann í markið.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Fyrri hálfleik er lokið, staðan 1:0 fyrir gestina frá Southampton.

40. MARK! Southampton skorar fyrsta mark leiksins. Charlie Austin skorar með vinstri fæti eftir sendingu frá Ryan Bertrand.

35. Það er enn markalaust á Ólympíuleikvanginum. 

17. Leikmenn West Ham vilja fá vítaspyrnu þegar Zaza fellur eftir baráttu í vítateignum. Það hefði verið gaman að sjá Zaza taka vítið en dómari leiksins dæmdi ekkert.

10. Rólegar fyrstu tíu mínúturnar. Gestirnir eru meira með boltann en hafa ekki enn náð að skapa sér færi.

1. Leikurinn er hafinn!

Byrjunarlið dagsins eru klár en þau má sjá hér að neðan:

West Ham: Adrian, Nordtveit, Reid, Ogbonna, Arbeloa, Antonio, Kouyate, Noble, Lanzini, Payet, Zaza. 

Southampton: Forster, Cedric, Fonte, Van Dijk, Bertrand, Romeu, Hojbjerg, Tadic, Davis, Redmond, Austin.

Það var hart barist á Ólympíuleikvanginum í dag.
Það var hart barist á Ólympíuleikvanginum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert