Verður Allardyce sparkað?

Sam Allardyce þykir afar valtur í sessi.
Sam Allardyce þykir afar valtur í sessi. AFP

Framtíð Sam Allardyce sem landsliðsþjálfara Englands í knattspyrnu er sögð vera í uppnámi eftir að hann að hann samþykkti að þiggja 400.000 pund fyrir að aðstoða austurlenska viðskiptajöfra við að fara í kringum reglur enska knattspyrnusambandsins við félagsskipti knattspyrnumanna.  Þetta gerði hann í samtali við blaðamenn sem tóku viðtalið upp með falinni myndavél á veitingastað í Austurlöndum síðsumars.

Breskir fjölmiðlar herma að enska knattspyrnusambandið hafi þegar hafið rannsókn á ummælum landsliðsþjálfarans og hefur sambandið m.a. óskað eftir nánari gögnum frá fjölmiðlum.

The Telegraph greindi frá málinu í kvöld.

Allardyce fer einnig háðulegum orðum um forvera sinn, Roy Hodgson og aðstoðarmann hans Gary Neville í fyrrgreindu viðtali þar sem m.a. er komið inn á tap enska landsliðsins fyrir því íslenska í 16-liða úrslitum EM í sumar. Allardyce veður einnig á súðum í palladómum um ýmsa mæta menn á Bretlandseyjum, þar á meðal úr konungsfjölskyldunni.

Allardyce tók við enska landsliðinu í sumar eftir EM í Frakklandi. Hann hefur stýrt landsliðinu í einum leik í undankeppni HM og fór enska liðið með sigur úr býtum. Ekki er talið útilokað að Allardyce hafi stýrt enska landsliðinu í síðasta sinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert