Í frí með fjölskyldunni en er ekki hættur

Sam Allardyce er afar vonsvikinn eftir að hafa misst starf …
Sam Allardyce er afar vonsvikinn eftir að hafa misst starf sitt sem þjálfari enska landsliðsins. AFP

Sam Allardyce sagði við Sky Sports nú í morgunsárið að hann væri á leið í frí með fjölskyldu sinni til að jafna sig og melta þá niðurstöðu að hann skuli vera hættur sem landsliðsþjálfari Englands, rétt rúmum tveimur mánuðum eftir að hafa tekið við starfinu.

Allardyce neyddist til þess að hætta eftir að hafa meðal annars samþykkt að taka við 400 þúsund punda greiðslu fyrir að aðstoða menn sem hann taldi vera austurlenska viðskiptamenn, sem hann fundaði með á hóteli, við að fara á svig við reglur enska knattspyrnusambandsins um eignarhald þriðja aðila á leikmönnum. Viðskiptamennirnir reyndust vera blaðamenn The Telegraph sem tóku fundinn upp  á myndband. Blaðið greindi svo frá málinu í fyrrakvöld.

„Ég get ekki lýst því hversu vonsvikinn ég er að hafa misst starfið sem landsliðsþjálfari Englands. Ég hef gerst sekur um gríðarlegan dómgreindarbrest,“ sagði Allardyce við Sky Sports.

„Ég fór bara á fundinn á hótelinu til að gera vini mínum, umboðsmanninum Scott McGarvey, greiða,“ sagði Allardyce, sem er ekki hættur heldur ætlar að halda áfram að starfa sem knattspyrnustjóri í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert