Zlatan byrjar - Verðum að vinna

Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United segist ætla að stilla upp sterku liði þegar United tekur á móti úkraínska liðinu Zorya Luhansk í 2. umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar á Old Trafford annað kvöld.

Mourinho sagði á fréttamannafundi í dag að Zlatan Ibrahimovic muni vera í byrjunarliðinu eins og í leiknum gegn Stoke á sunnudaginn en stjórinn segist enn eftir að gera það upp við hvort fyrirliðinn Wayne Rooney byrji eða hefji leikinn á bekknum en Mourinho sagði að Rooney hafi átt við bakmeiðsli að stríða í síðustu viku.

Frakkinn Anthony Martial er orðinn leikfær á ný og verður í hópnum en Luke Shaw er veikur og spilar ekki og þá verður Armeninn heldur ekki með en hann er þó byrjaður að æfa eftir meiðsli sem hafa verið að hrjá hann.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá verðum við vinna þennan leik. Ef okkur tekst það ekki eigum við fjóra leiki eftir og þá þyrftum við að vinna þá alla sem er erfitt,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert