Aðstoðarstjóri Southampton sakaður um spillingu

Eric Black.
Eric Black. AFP

Eric Black, aðstoðarknattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Southampton, gaf dulbúinni blaðakonu The Daily Telegraph ráð um það hvernig mætti múta forráðamönnum félaga. Þetta kemur fram á vefsíðu blaðsins í kvöld.

Black var myndaður af dulbúinni blaðakonu Telegraph sem þóttist vera viðskiptakona frá Austurlöndum.

Samkvæmt Telegraph kemur það fram á myndskeiðinu að Black hefði nefnt nöfn fólks hjá öðrum félögum sem átti, gegn greiðslu, að geta hjálpað „platfyrirtækinu“ að finna leikmenn fyrir það sem það gæti síðan grætt á. Það fer þvert á reglur enska knattspyrnusambandsins. 

Black, sem var tímabundinn stjóri Aston Villa á síðustu leiktíð og stýrði félaginu í sjö leikjum, neitar sök.

Forráðamenn Southampton sendu frá sér yfirlýsingu í kvöld vegna málsins sem þeir segjast munu skoða nánar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert