Veit að Liverpool-leikurinn gæti orðið sinn síðasti

Francesco Guidolin virðist nauðsynlega þurfa á sigri að halda gegn …
Francesco Guidolin virðist nauðsynlega þurfa á sigri að halda gegn Liverpool. AFP

Francesco Guidolin, knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga hjá Swansea, viðurkennir að hann eigi á hættu að missa starfið á laugardaginn fari svo að liðið tapi fyrir Liverpool.

Swansea hefur tapað þremur leikjum í röð og aðeins unnið einn af leikjum sínum til þessa í úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Ensku blöðin hafa þegar orðað menn eins og Ryan Giggs og Bob Bradley, fyrrverandi landsliðsþjálfara Bandaríkjanna, við starfið sem Guidolin tók undir að hann gæti verið að missa:

„Kannski, við sjáum til,“ sagði þessi 60 ára gamli Ítali sem segist enn njóta stuðnings hjá leikmönnum. Hann kveðst ekki hafa rætt framtíðina við stjórnarformanninn Huw Jenkins.

„Ég ræddi við formanninn í síðustu viku en núna er mikilvægast að ég geti unnið með leikmönnunum og liðinu í að undirbúa næsta leik, að ég sé vel einbeittur í því,“ sagði Guidolin.

„Ég veit að þetta er ekki góður tími fyrir liðið né heldur stjórann, vegna þess að staðan á töflunni er ekki góð og við þurfum betri úrslit. Í augnablikinu skiptir staða mín ekki máli. Það sem skiptir máli er staða Swansea City,“ sagði Guidolin.

Leikur Swansea og Liverpool hefst kl. 11.30 á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert