Hugsa til Chelsea með hlýjum hug

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, mætir sínu fyrrum félagi, Chelsea, …
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, mætir sínu fyrrum félagi, Chelsea, á morgun. AFP

„Ég ber engan kala til Chelsea og félagið getur ekki gleymt þeirri sögu sem ég skapaði á tíma mínum þar,“ segir José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, snýr aftur á gamla heimavöllinn sinn, Stamford Bridge á morgun í fyrsta skipti síðan hann var látinn taka pokann sinn sem knattspyrnustjóri Chelsea í desember á síðasta ári.  

Á þeim tíma sem Mourinho stýrði Chelsea varð liðið þrisvar sinnum enskur meistari auk þess að vinna enska bikarinn einu sinni og verða deildarbikarmeistari þrívegis. Titilvörnin hófst hins vegar afar illa á síðasta keppnistímabili og liðið var einu stigi frá fallsæti þegar Mourinho var sagt upp störfum. 

„Margir af fremstu knattspyrnustjórum ganga í gegnum það að vera reknir. Það eru gríðarlega væntingar í fótboltanum í dag og hver sem er getur lent í því að vera rekinn. Ég gaf allt sem ég átti til Chelsea á sínum tíma og veitti stuðningsmönnum félagsins nokkrar af bestu stundum í sögu félagsins. Af þeim sökum lít ég glaður til baka til veru minnar hjá Chelsea,“ sagði Mourinho í samtali við Skysports. 

„Stuðningsmenn Chelsea stóðu við bakið á mér allt til enda og þeir vildu halda mér hjá félaginu. Það er hins vegar eigandi félagsins sem ræður og hann hefur völdin. Eigandinn ákvað að reka mig og ég skildi við félagið sáttur. Ég býst við góðum móttökum þegar ég mæti á Stamford Bridge, en þegar leikurinn hefst mun ég hins vegar lítið velta mér upp úr því,“ sagði Mourinho enn fremur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert