Vandræðalegt hjá Pogba og Herrera

Paul Pogba var einn þeirra sem Neville gagnrýndi eftir tap …
Paul Pogba var einn þeirra sem Neville gagnrýndi eftir tap United gegn Chelsea í gær. AFP

Gary Neville nefndi þrjá leikmenn Manchester United sérstaklega þegar hann gagnrýndi slaka frammistöðu liðsins í 4:0-tapinu gegn Chelsea á Stamford Bridge í gær.

Neville, sem lék yfir 400 deildarleiki fyrir United á árunum 1992-2011, var sérstaklega óánægður með frammistöðu miðjumanna United og benti á að kannski færi betur á að nota Michael Carrick líkt og í sigrinum á Fenerbahce í Evrópudeildinni á fimmtudagskvöld.

„Carrick spilaði á fimmtudaginn og jú, mótstaðan var minni, en hann virðist veita besta jafnvægið í liðinu. Á meðal hinna fjögurra [miðjumannanna] eru fáir sem hafa getað veitt jafnvægi. Varnarmönnum og markvörðum er alltaf kennt um mörk en þetta er bara vandræðalegt hjá Pogba og Herrera. Varnarleikurinn hjá Chris Smalling er alveg skelfilegur en að láta Kanté bara hlaupa svona framhjá sér... þú ert miðjumaður!“ sagði Neville og vísaði sérstaklega til marksins sem N‘Golo Kanté skoraði og kom Chelsea í 4:0.

Neville segist ekki endilega hafa áhyggjur af leiknum í gær, heldur frammistöðu United á undanförnum vikum.

„Manchester United hefur oftast tapað á Stamford Bridge síðustu 20 ár en þetta snýst ekki um þennan leik. Þetta snýst um síðustu vikur. Það að liðið hafi ekki unnið Stoke á heimavelli er meira áhyggjuefni en að tapa fyrir Chelsea,“ sagði Neville. Hann sagði fyrsta, þriðja og fjórða mark Chelsea hafa komið of auðveldlega:

„Þetta var slappt í seinni hálfleik. Þetta eru auðveld mörk. Kanté fékk bara að hlaupa í gegn, Hazard fór í gegn, og fyrsta markið var bara grín. Þjálfarar geta gert alls konar áætlanir en leikáætlunin fer alltaf út um gluggann með svona mistökum,“ sagði Neville.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert