„Þetta hljómar mjög illa“

Rowett fær sér rauðvín fyrir leiki.
Rowett fær sér rauðvín fyrir leiki. Skjáskot/twitter

Gary Rowett, knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Birmingham, fær sér glas af rauðvíni þegar leikmenn hans hita upp fyrir leik. Hann gerir það vegna þess að honum leiðist.

„Ég er ekki stressuð týpa en þetta róar mig aðeins fyrir leiki. Þetta getur verið erfitt þegar leikurinn hefst klukkan 12 á hádegi,“ sagði Rowett í útvarpsviðtali við BBC.

„Þetta hljómar mjög illa en mér leiðist svona hálftíma fyrir leik. Ég fer ekki út og fylgist með mönnum hita upp, þeir sjá um það sjálfir. Þá sit ég einn á skrifstofunni minni og get ekki beðið eftir því að leikurinn byrji,“ bætti Rowett við.

Útvarpsmenn spurðu knattspyrnustjórann góðlátlega hvort þetta væri ekki hættulegt; að drekka einn í vinnunni. „Ef þið talið við konuna mína þá drekk ég yfirleitt einn heima líka. Þetta snýst því allt um að vera samkvæmur sjálfum sér,“ sagði Rowett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert