Undrast áhugaleysi Mourinho

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Leikmenn Manchester United eru margir hverjir undrandi á meintu áhugaleysi knattspyrnustjórans, José Mourinho, á æfingasvæðinu, samkvæmt heimildum frá Bretlandi.

Gengi liðsins hefur ekki verið eins gott og stuðningsmenn vonuðust eftir síðan Mourinho tók við í sumar, en stuðningsmenn og leikmenn bjuggust við meiru af „hinum sérstaka“.

United tapaði stórt fyrir Chelsea í síðasta deildarleik, 4:0, og er liðið sex stigum á eftir þremur efstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar, Arsenal, Liverpool og Manchester City.

Eftir leik sakaði Mourinho knattspyrnustjóra Chelsea, Antonio Conte, um að hafa reynt að gera lítið úr sér með fagnaðarlátum þegar sigur Chelsea var í höfn. 

The Times fullyrðir að nokkrir leikmenn United séu afar undrandi á þjálfunaraðferðum Mourinho á æfingasvæðinu. Stundum yfirgefur Mourinho æfingasvæðið á miðri æfingu og lætur aðstoðarmann sinn um að klára æfinguna.

Leikmenn eiga einnig að vera óánægðir með hvernig Mourinho sér um þá, maður á mann. Knattspyrnustjórinn sýnir leikmönnum lítinn áhuga, mun minni en leikmenn bjuggust við þegar hann tók við í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert