Pogba yrði stórkostlegur miðvörður

Paul Pogba, dýrasti knattspyrnumaður sögunnar.
Paul Pogba, dýrasti knattspyrnumaður sögunnar. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að franski miðjumaðurinn Paul Pogba, dýrasti knattspyrnumaður heims, sé afar fjölhæfur og geti orðið stórkostlegur miðvörður.

Pogba hefur ekki náð að standa undir væntingum á fyrstu mánuðum sínum hjá United en Mourinho segir að leikmaðurinn þurfi tíma til að blómstra. „Hann er að verða betri og betri að öllu leyti. Við því búumst við. Við reiknuðum ekki með að Paul kæmi hingað og yrði ótrúlegur strax daginn eftir,“ sagði Mourinho við Sky Sports.

„Hann er mjög sjálfsöruggur, svo við höfum ekki áhyggjur af gagnrýnendum, og við vitum hvernig þeir eru,“ sagði Mourinho.

Miðvörðurinn Eric Bailly verður ekki með United næstu tvo mánuðina og af orðum Mourinho að dæma mætti halda að Pogba gæti fyllt skarð hans, en stjórinn á eflaust frekar við að einhvern tímann í framtíðinni geti Pogba orðið miðvörður:

„Hann er toppleikmaður og ég held að hann yrði stórkostlegur miðvörður. Hann gæti orðið stórkostlegur miðvörður sem kæmi með boltann fram völlinn, með sendingarhæfileika sína, hæfileika í loftinu, lipurð þrátt fyrir stóran líkama og varnarhæfileika,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert