Mourinho kærður

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur verið kærður af aganefnd enska knattspyrnusambandsins vegna ummæla sem hann lét falla um dómarann Anthony Taylor í aðdraganda leiks Liverpool og Manchester United á dögunum.

Mourinho tjáði sig um þá ákvörðun að láta Taylor dæma leikinn milli erkifjendanna á blaðamannafundi fyrir leikinn, en knattspyrnustjórum er óheimilt að tjá sig um dómara sem munu dæma í leikjum þeirra. Er það samkvæmt reglum sem enska knattspyrnusambandið setti árið 2009.

„Mér finnst hr. Taylor afar góður dómari, en það er verið að setja hann undir mikla pressu með því að benda á það hvar hann býr. Það verður erfitt fyrir hr. Taylor að dæma leikinn vel að mínu mati,“ sagði Mourinho fyrir leikinn, en Taylor er búsettur í Manchesterborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert