Stjóri Gylfa vill ekki versla mikið í janúar

Bob Bradley, knattspyrnustjóri Swansea.
Bob Bradley, knattspyrnustjóri Swansea. AFP

Bob Bradley, hinn bandaríski knattspyrnustjóri Swansea, segir að gengi liðsins í desember muni ráða miklu um það hvort liðinu takist að forða sér frá falli á leiktíðinni.

„Það er núna að fara í hönd afar mikilvægur tími fram að nýju ári. Það er mikil vinna framundan,“ sagði Bradley við BBC, en Swansea mætir Tottenham um helgina og á svo fimm leiki við lið úr hópi 12 neðstu liða deildarinnar.

„Þetta eru allt mikilvægir leikir. Þarna er tækifæri til að breyta genginu til hins betra. Við getum náð að gleyma þessari slæmu byrjun og fengið trúna á að við getum klárað þetta tímabil vel,“ sagði Bradley.

Swansea hefur fengið fyrrverandi stjóra félagsins, Brian Flynn, aftur til starfa en í þetta sinn til þess að finna leikmenn. Opnað verður fyrir félagaskipti 1. janúar og mun Flynn þá hjálpa til við að styrkja leikmannahóp Swansea, en Bradley vill ekkert vera að gera miklar breytingar á hópnum sínum:

„Ég held að við séum ekkert að tala um mikil viðskipti. Við teljum okkur vera með öflugan kjarna sem við viljum bæta við,“ sagði Bradley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert