Búið til fréttir og spyrjið mig svo um þær

Jürgen Klopp kann að svara fyrir sig.
Jürgen Klopp kann að svara fyrir sig. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hafnar fréttum um að félagið ætli að selja framherjann Daniel Sturridge í janúarmánuði, en talsverðar vangaveltur hafa verið um það í enskum fjölmiðlum að undanförnu.

Klopp var spurður að þessu á fréttamannafundi fyrir stundu. „Það er svo fyndið að þú og kollegar þínir búið til fréttir og spyrjið mig svo um þessar fréttir, sem eru engar fréttir," svaraði Klopp spurningunni.

„Ég er ekki með neinar áætlanir um að selja nokkurn leikmann úr okkar aðalliðshópi. Daniel æfir ekki sem stendur og ég hef meiri áhyggjur af því en einhverjum sögusögnum um sölur, en ég er tilbúinn fyrir janúarmánuð og þær spurningar sem ég fæ þá frá ykkur. Það ætti að verða skemmtilegt!" sagði Þjóðverjinn glottandi.

Hann staðfesti að Adam Lallana og Roberto Firmino væru byrjaðir að æfa á ný með liðinu eftir meiðsli en Lallana hefur glímt við nárameiðsli og Firmino fékk högg á kálfa um síðustu helgi.

Liverpool sækir Bournemouth heim á sunnudaginn, og mætir síðan West Ham og Middlesbrough. Klopp sagði að þetta væri miklu erfiðari dagskrá en margir héldu.

„Bournemouth hefur gert það virkilega gott og var óheppið gegn Arsenal í síðustu viku þar sem liðið hefði getað fengið vítaspyrnu. West Ham er mjög hæfileikaríkt lið og við ættum ekki að taka mark á stöðu liðsins í deildinni. Allir sem heimsækja Middlesbrough lenda í vandræðum. Ég sé þetta ekki sem auðvelda leiki, þetta verða allt hörkuleikir," sagði Klopp þegar hann var spurður hvort Liverpool ætti ekki létta leikjadagskrá fyrir höndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert