„Þeir reyndu að þagga niður í mér“

Chelsea er sakað um að hafa þaggað niður í fórnarlambi …
Chelsea er sakað um að hafa þaggað niður í fórnarlambi kynferðisofbeldis. AFP

Fyrrverandi leikmaður Chelsea heldur því fram að félagið hafi greitt honum 50 þúsund pund (7 milljónir íslenskra króna) gegn því skilyrði að hann myndi ekki tjá sig um kynferðislegt ofbeldi sem hann varð fyrir af hendi yfirnjósnara félagsins þegar hann var yngri.

Hinn 57 ára gamli Gary Johnson sagði í viðtali við The Mirror í dag að hann hefði verið misnotaður af Eddie Heath þegar hann lék með unglingaliði Chelsea. Heath var yfirnjósnari Chelsea frá 1968 til 1979 en hann lést áður en ásakanirnar gegn honum komu fram í dagsljósið.

Áður hafði verið greint frá því að Chelsea rannsakaði hvort kynferðisofbeldi hefði átt sér stað hjá félaginu á áttunda áratug síðustu aldar. 

„Ég held að þeir hafi borgað mér til að ég myndi halda mér saman. Milljónir stuðningsmanna um allan heim horfa á Chelsea. Þeir eru eitt stærsta og ríkasta lið í heimi,“ sagði Johnson við Daily Mirror vegna málsins.

„Allir stuðningsmennirnir eiga skilið að fá að heyra sannleikann. Ég veit að þeir reyndu að þagga niður í mér en hversu margir aðrir lentu í sömu stöðu? Ég bið og vona að félög nái ekki að breiða yfir svona mál, enginn á að geta flúið réttvísina,“ bætti Johnson við.

Framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins, Martin Glenn, sagði að félög sem væru uppvís að því að þagga niður í málum um kynferðislegt ofbeldi yrði refsað.

Johnson lék með aðalliði Chelsea á árunum 1978 til 1981 en hann gekk til liðs við Chelsea árið 1970, þá 11 ára gamall. Hann segir að misnotkunin hafi byrjað þegar hann var 13 ára.

„Ég skammaðist mín og fannst eins og æskan hefði verið tekin af mér. Ég var í miklu uppnámi vegna þess,“ sagði Johnson.

Heath var yfirnjósnari Chelsea frá 1968 til 1979 en hann lést áður en ásakanirnar gegn honum komu fram í dagsljósið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert