Eyjamaðurinn samdi við Derby

Charles Vernam í baráttu við Heiðar Ægisson í leik með …
Charles Vernam í baráttu við Heiðar Ægisson í leik með ÍBV gegn Stjörnunni í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Enski framherjinn Charles Vernam, sem lék með Eyjamönnum framan af síðasta Íslandsmóti í knattspyrnu, hefur samið við B-deildarfélagið Derby County til sumarsins 2019.

Vernam, sem er tvítugur, kom til Derby frá Scunthorpe fyrir tæplega fjórum árum og hefur spilað með unglingaliði og síðan U23 ára liði félagsins. Hann hefur vakið talsverða athygli með síðarnefnda liðinu í vetur og var í fyrsta sinn valinn í aðalliðshóp Derby fyrir leik liðsins gegn Norwich um síðustu helgi.

Hann spilaði níu leiki með ÍBV í Pepsi-deildinni í sumar og skoraði eitt mark, í 4:0 sigri gegn ÍA í fyrstu umferðinni, og þá spilaði hann tvo bikarleiki, þar sem hann skoraði í 2:0 sigri á Hugin í 32ja liða úrslitunum.

Steve McClaren knattspyrnustjóri Derby segir að Vernam sé afar efnilegur leikmaður sem eigi möguleika á að bæta sig mikið, og hann hafi nef fyrir því að skora mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert