Við erum í mikilli krísu

Alan Pardew hefur verið í miklu basli með Crystal Palace …
Alan Pardew hefur verið í miklu basli með Crystal Palace undanfarið. AFP

Alan Pardew knattspyrnustjóri Crystal Palace viðurkennir að lið sitt sé komið í mikla krísu eftir slæmt gengi í ensku úrvalsdeildinni undanfarnar vikur en þar hefur hans lið nú tapað sex leikjum í röð.

Crystal Palace tekur á móti Southampton á Selhurst Park á morgun og Pardew segir að það sé ljóst að til að halda starfinu verði hann að stöðva þessa taphrinu en aðeins markatala heldur liðinu frá  fallsæti eins og staðan er núna.

„Stjórnarformaðurinn og stjórnin hafa sýnt mér stórkostlegan stuðning. Þetta er frábært knattspyrnufélag með flott framtíðarplön, en við erum í krísu í augnablikinu, kannski lítilli krísu, en við verðum að komast í gegnum hana. Allt sem hefur verið gert, allt sem stjórnin ætlar að gera til að taka næsta skref lofar góðu. En yfir þennan kafla verðum við að komast. Menn vilja sjá frá okkur það framlag sem þarf innan vallar til að ná fram góðum úrslitum," sagði Pardew við The Guardian.

Hann sagði að starf sitt stæði ekki eða félli endilega með leiknum við Southampton. „Nei, en ég er raunsær. Ég veit hvað úrvalsdeildin gengur út á. Ég verð að sjá til þess að næsti leikur fari vel. Þannig er mín staða. Við Steve (Parish, stjórnarformaður) fundum reglulega og tölum saman nær daglega. Við erum í góðu sambandi og ég vil endurgjalda það traust sem hann hefur sýnt mér og endurgjalda stuðningsmönnunum sem fylgdu okkur til Swansea og hafa áfram trú á okkur. Það var eins sárt tap og hægt er að upplifa í fótboltaleik," sagði Pardew en þar tapaði Palace 5:4 eftir að hafa komist 4:3 yfir rétt fyrir leikslok.

Pardew er 55 ára gamall og lék 128 deildaleiki með Palace á árunum 1987 til 1991. Hann tók við stjórn liðsins í ársbyrjun 2015 en hann stýrði áður Newcastle, Southampton, Charlton, West Ham og Reading. Hann  var stjóri West Ham þegar íslenskir kaupsýslumenn tóku  við stjórn félagsins árið 2006 og var þá fljótlega sagt upp störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert