Baðst afsökunar – Agüero í fjögurra leikja bann

Það sauð upp úr á Ethiad-vellinum í dag.
Það sauð upp úr á Ethiad-vellinum í dag. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, baðst afsökunar á framferði sinna manna undir lok leiksins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en tveir leikmanna hans fengu að líta rauða spjaldið á lokamínútum leiksins.

Eftir að Sergio Agüero framherji City gerði sig sekan um fólskulegt brot á David Luiz sauð allt upp úr. Agüero var réttilega vísað af velli fyrir brotið á Luiz og Fernandinho fauk einnig út af eftir að hafa tekið hressilega á Cesc Fábregas.

„Það er leiðinlegt þegar leikur endar á þennan hátt. Það fellur mér ekki í geð og ég biðst afsökunar á því sem gerðist,“ sagði Guardiola eftir leikinn.

Agüero á yfir höfði sér fjögurra leikja bann þar sem þetta er í annað sinn á leiktíðinni sem honum er vísað af velli og Fernadinho fer í þriggja leikja bann en City varð að sætta sig við 1:3 tap fyrir Chelsea í toppslag deildarinnar.

„Við unnum ekki leikinn vegna þess að við fórum illa með færin ekki út af ákvörðun dómarans,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert