Kannski meistarar eftir að ég fer

José Mourinho er með Manchester United í sjötta sæti en …
José Mourinho er með Manchester United í sjötta sæti en telur liðið vera á réttri leið. AFP

José Mourinho segir að Manchester United sé á réttri leið og verði enskur meistari á nýjan leik en hvort það gerist á meðan hann er við stjórnvölinn hjá félaginu eigi eftir að koma í ljós.

Mourinho tók við starfi knattspyrnustjóra af Louis van Gaal í sumar og sagði þá strax að það væri markmið sitt að vinna titilinn á fyrsta tímabili sínu hjá félaginu. Í gær viðurkenndi Portúgalinn að óvíst væri að það tækist og svo gæti farið að næst þegar félagið ynni meistaratitilinn yrði það ekki undir sinni stjórn.

Þegar Mourinho hefur tekið við nýju liði hefur það ávallt byrjað af krafti og fingraför hans hafa verið augljós frá byrjun. Mourinho sagði í gær að það hefði ekki gerst hjá United vegna þess hve hugmyndafræði hans og forvera hans væri gjörsamlega ólík.

„Stundum þarf ekki að gera teljandi breytingar þegar nýr stjóri tekur við liði. Þá þarf kannski aðeins að breyta áherslum, nýi maðurinn bætir við sínum fingraförum og getur nýtt mest af því sem áður hafði verið gert hjá liðinu. Við erum hins vegar að reyna að gera hluti sem eru gjörólíkir því sem áður var. Við værum eflaust búnir að ná betri úrslitum ef við værum ekki að stefna í allt aðra átt. Þar á ég ekki við leikaðferðina heldur þann stíl sem liðið vill beita, og það er erfiðast viðureignar í fótboltanum,“ sagði Mourinho á fréttamannafundi í gær.

Mourinho telur að van Gaal hafi verið of varnarsinnaður og lið United hafi undir hans stjórn notað allt of mikið af þversendingum og sendingum til baka, en ekki gert nægilega mikið af því að sækja og nýta svæðið á milli framherja og miðju. Margir hafa látið í ljós þá skoðun sína að liðið leiki betur undir stjórn Mourinho en það gerði í fyrra en hann er óánægður með að bestu leikirnir skuli hafa verið í deildabikarnum en ekki í deildinni.

„Við höfum ekki náð að skora mörk í deildinni í samræmi við það sem frammistaðan hefði verðskuldað. Það er samt enginn vafi á því að við erum á réttri leið. Við vitum hvert við stefnum og það er meistaratitillinn. Kannski náum við því ekki á þessu tímabili. Í fótboltanum veit maður aldrei en kannski er bilið orðið of breitt. Ég veit ekki hvenær við verðum meistarar, kannski verður það eftir að ég verð farinn, en það er markmið okkar og því mun félagið ná,“ sagði Mourinho.

United sækir Everton heim á morgun klukkan 16 og Mourinho snýr aftur á bekkinn eftir eins leiks bann sem hann tók út í deildabikarnum gegn West Ham í vikunni. Mourinho telur að hann fái harðari meðferð en aðrir stjórar í deildinni.

„Ég vil fara eftir reglunum, en vil að sömu reglur gildi um alla. Ég má ekki sparka í vatnsbrúsa, það er eðlilegt, enda þrasaði ég ekkert yfir þeirri brottvísun. Ef þetta eru reglurnar, þá er það bara fínt. Ég vil bara vera viss um að þær gildi líka fyrir alla hina stjórana,“ sagði José Mourinho.

Manchester United er með 20 stig eftir þrettán umferðir í deildinni, hefur aðeins unnið fimm leiki, og er í sjötta sæti, ellefu stigum á eftir toppliði Chelsea og stigi á undan Everton sem er í sjöunda sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert