Óslípaður demantur sem síðar glampaði á

Steven Gerrard í leik á heimavelli Liverpool, Anfield.
Steven Gerrard í leik á heimavelli Liverpool, Anfield. AFP

Mikill höfðingi úr Bítlaborginni Liverpool, Steven Gerrard, ákvað að láta staðar numið á dögunum og leggja takkaskónum, 36 ára að aldri. Gerrard nýtur mikillar virðingar í knattspyrnuheiminum og þá sérstaklega á Bretlandseyjum.

Liverpool á fjölmarga stuðningsmenn hérlendis eins og dæmin sanna og þar er Gerrard í hávegum hafður. Ekki að ástæðulausu, enda fór hann fyrir liðinu þegar Liverpool sigraði í Meistaradeildinni árið 2005 svo eitthvað sé nú tínt til.

Ferli Gerrards voru gerð skil í Morgunblaðinu á dögunum en blaðinu datt einnig í hug að fá Íslending til liðs við sig sem hafði nokkur kynni af Gerrard þegar hann var ungur leikmaður. Þar er um að ræða Hauk Inga Guðnason, sem einnig er úr Bítlabæ, eða Keflavík. Haukur er eini Íslendingurinn sem verið hefur á leikskýrslu hjá karlaliði Liverpool í ensku deildinni. Haukur var fús til þess að láta hugann reika aftur til síðustu aldar og draga upp mynd af Gerrard eins og hann kom Hauki fyrir sjónir snemma á ferlinum.

„Þegar ég kom út til Liverpool 2. janúar 1998 var Gerrard í unglingaliðinu. Fyrsta veturinn man ég óljóst eftir honum. Við spiluðum saman tvo til þrjá leiki í unglingaliðinu en í mars var ég færður upp í aðalliðshópinn og spilaði eftir það því einungis með varaliðinu. Á þessum tíma var Michael Owen ungstirni og sá efnilegasti á Bretlandseyjum og þótt víðar væri leitað.

Þar sem Owen var byrjaður að láta til sín taka með aðalliði félagsins var kannski ekki mjög mikil athygli á Gerrard, þótt margir hefðu trú á honum. Þar sem síðustu árin á ferli Owens voru honum frekar erfið gleymist kannski hversu magnaður leikmaður hann var á þessum tíma, aðeins 18 ára. Hann gat gert hreint ótrúlega hluti á æfingum. Það er því ósköp eðlilegt að Gerrard og fleiri hafi verið í skugga hans þennan veturinn,“ sagði Haukur.

Sjá viðtal við Hauk Inga í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert