„Svona er fótboltinn“

Claudio Ranieri og David Moeys á hliðarlínunni í dag.
Claudio Ranieri og David Moeys á hliðarlínunni í dag. AFP

Vandræðagangur Englandsmeistara Leicester City í ensku úrvalsdeildinni heldur áfram en eftir 2:1 ósigur gegn Sunderland í dag eru meistararnir aðeins einu stigi frá fallsæti.

„Það gengur hvorki né rekur hjá okkur í deildinni en við verðum að halda áfram að leggja hart að okkur og reyna að öðlast trúna á ný. En svona er fótboltinn. Maður upplifir góðar stundir og vondar og það eru vondir tímar hjá okkur núna. En við verðum að standa saman,“ sagði Claudio Ranieri, stjóri Leicester, eftir leikinn en liðið er með 15 stig. Í fyrra tapaði Leicester aðeins þremur leikjum í deildinni en hefur tapað 7 leikjum í fyrstu 14 umferðunum.

„Mér finnst við vera að spila með svipuðum hætti í úrvalsdeildinni eins og í Meistaradeildinni. Í dag skoruðu mótherjarnir en við nýttum ekki okkar tækifæri en þetta hefur snúist við í Meistaradeildinni,“ sagði Ranieri en Leicester hefur gengið allt í haginn í Meistaradeildinni og er komið í 16-liða úrslitin í fyrsta sinn sem liðið tekur þátt í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert