„Hefði átt að vera áfram hjá United“

Henrik Larsson.
Henrik Larsson. AFP

Henrik Larsson, fyrrum leikmaður Barcelona og sænska landsliðsins, sér eftir því að hafa ekki ákveðið að vera lengur hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United er hann kom til félagsins á láni árið 2007.

Larsson, sem gerði garðinn frægan hjá Glasgow Celtic í Skotlandi, er einn besti leikmaður Svíþjóðar frá upphafi en hann lék einnig með Feyenoord og svo Barcelona á ferlinum.

Hann samdi við Barcelona árið 2004 og lék tvö tímabil með liðinu en á seinna tímabilinu gerði hann gerði 15 mörk í 42 leikjum. Hann var þá búinn að ákveða að gera tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt, Helsingborg, eftir tímabilið og gekk það eftir.

Það var svo óvænt í janúar er Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, óskaði eftir því að fá Larsson á láni í tvo mánuði og stuttu síðar var Larsson mættur til Manchester, en hann sér eftir því að hafa ekki framlengt lánssamninginn.

„Þetta er það eina sem ég sé eftir. Þetta hefði þýtt það að ég hefði unnið deildina með liðinu og verið eitt tímabil til viðbótar,“ sagði Larsson.

„Ég var samt enn á samningi hjá Helsingborg og þegar maður gerir samning þá finnst mér að maður verði að virða það,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert