Viðstaddur er Pogba skrifaði undir

Paul Pogba samdi við Manchester United í sumar.
Paul Pogba samdi við Manchester United í sumar. AFP

Franski miðjumaðurinn Paul Pogba var keyptur frá Juventus til Manchester United fyrir metfé í sumar en hann er dýrasti knattspyrnumaður heims. Leikmaður Everton var viðstaddur er Pogba skrifaði undir.

Pogba fór í slökun til Bandaríkjanna eftir Evrópumótið í Frakklandi í sumar en þar var hann að ákveða næsta skref á ferlinum. Ljóst var að hann myndi yfirgefa Juventus en Barcelona, Chelsea, Manchester City, Manchester United og Real Madrid börðust um kappann.

Ítalski umboðsmaðurinn Mino Raiola sér um Pogba en hann er einnig umboðsmaður Romelu Lukaku hjá Everton. Pogba og Lukaku eru góðir félagar og eyddu sumrinu saman í Bandaríkjunum en Lukaku var viðstaddur er Pogba skrifaði undir hjá United.

„Ég var á hótelinu með honum þegar hann skrifaði undir. Það voru sennilega tíu manneskjur í kringum hann með skjalatöskur og samninga,“ sagði Lukaku.

„Ég hef þekkt Pogba í mörg ár og ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei séð þennan svip á honum áður. Hann var svo glaður að koma aftur til United. Þetta hafði ekkert með peninga að gera,“ sagði hann í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert