Íhugar að vera eftir í Liverpool

Joel Matip í leik með Liverpool.
Joel Matip í leik með Liverpool. AFP

Joel Matip, varnarmaður Liverpool á Englandi, tekur næstu daga í að ákveða það hvort hann ætli sér að fara með kamerúnska landsliðinu í knattspyrnu á Afríkumótið sem hefst í janúar.

Matip, sem er 25 ára gamall, kom til Liverpool á frjálsri sölu í sumar frá þýska stórliðinu Schalke en óhætt er að segja að hann hefur heldur betur komið á óvart.

Hann hefur reynst vera ein bestu kaup félagsins og er mikilvægi hans óumdeilanlegt en þegar hann spilar þá virðist liðið ekki geta tapað leik. Þá ellefu deildarleiki sem hann hefur spilað hefur liðið unnið átta og gert þrjú jafntefli en af þeim þremur leikjum sem hann hefur ekki spilað hefur liðið unnið einn og tapað tveimur.

Matip er fæddur í Þýskalandi en faðir hans er frá Kamerún. Hann ákvað að leika fyrir Kamerún en eins og flestum er kunnugt fer Afríkumótið fram í byrjun árs. Mótið hefst 14. janúar og klárast 5. febrúar en ljóst er að Matip myndi missa af mikilvægum leikjum hjá Liverpool.

Hann hefur verið að glíma við meiðsli í ökkla undanfarnar vikur og ræddi við þjálfara kamerúnska liðsins í síðustu viku. Hann mun því ákveða á næstu dögum hvort hann ætli sér að fara á mótið eða vera eftir í Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert