Mourinho hæstánægður með Mkhitaryan

Henrikh Mkhitaryan fagnar marki sínu gegn Zorya í gærkvöld.
Henrikh Mkhitaryan fagnar marki sínu gegn Zorya í gærkvöld. AFP

José Mourinho var óspar á hrósið í garð Henrikh Mkhitaryan eftir að Armeninn skoraði sitt fyrsta mark fyrir Manchester United, í 2:0-sigrinum á Zorya í gærkvöld sem fleytti United áfram í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar í knattspyrnu.

Mkhitaryan var keyptur fyrir 26 milljónir punda frá Dortmund í sumar en hefur þurft að sætta sig við það drjúgan hluta tímabilsins að vera utan leikmannahóps hjá United. Það virðist vera að breytast og Mkhitaryan hefur nú verið í byrjunarliði United í síðustu þremur leikjum.

„Hann lagði hart að sér, bæði líkamlega og við að fylgja taktíkinni, og við vitum hvaða hæfileika hann hefur,“ sagði Mourinho.

Þegar Mkhitaryan var ekki í leikmannahópi United í haust sagði Mourinho að miðjumaðurinn þyrfti tíma til að aðlagast enska boltanum og kallaði eftir því að hann „gerði meira“.

„Hann er með sterkt hugarfar. Hann var staðráðinn í að komast í gegnum þessa erfiðu aðlögun og hefur verið að gera það með besta mögulega hætti. Hann barðist fyrir því að verða betri í að fylgja taktík, og verða líkamlega sterkari, og núna spilar hann vel í úrvalsdeildinni, Evrópudeildinni og deildabikarnum. Hann er orðinn hamingjusamari, svo ég er mjög ánægður,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert