Aron Einar skoraði – markaveisla í Íslendingaslag

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. AFP

Íslendingarnir í ensku B-deildinni í knattspyrnu voru í eldlínunni í dag en enginn þeirra fagnaði þó sigri.

Aron Einar Gunnarsson skoraði fyrir Cardiff þegar hann kom liðinu yfir gegn Ipswich á 38. mínútu í kjölfar hornspyrnu, en Ipswich jafnaði í síðari hálfleik, 1:1.

Aron Einar spilaði allan leikinn fyrir Cardiff, en stigið kom liðinu ekki úr fallsæti. Cardiff er með 20 stig líkt og Blackburn sem hangir hins vegar fyrir ofan fallsvæðið með betra markahlutfall.

Það var Íslendingaslagur þegar Wolves fékk Fulham í heimsókn. Þeir Jón Daði Böðvarsson og Ragnar Sigurðsson voru báðir á varamannabekk sinna liða, en eftir tvö mörk í uppbótartíma varð niðurstaðan jafntefli, 4:4.

Jón Daði kom inn á sem varamaður hjá Wolves á 59. mínútu í stöðunni 2:2, en Ragnar sat allan tímann á tréverkinu. Wolves er í 19. sæti með 22 stig en Fulham er í níunda sætinu með 29 stig.

Hörður Björgvin Magnússon spilaði svo allan leikinn með Bristol City sem tapaði á útivelli fyrir Huddersfield, 2:1. Bristol er í 13. sæti deildarinnar með 27 stig.

Newcastle er á toppnum með 43 stig, en liðið lagði Birmingham örugglega á heimavelli sínum 4:0. Dwight Gayle skoraði þrennu og er markahæstur með 16 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert