Graham Taylor er látinn

Graham Taylor.
Graham Taylor.

Graham Taylor, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu, knattspyrnustjóri margra félaga á árum áður og heiðursforseti Watford, er látinn, 72 ára að aldri. Talið er að banamein hans hafi verið hjartaáfall en hann lést á heimili sínu snemma í morgun.

Taylor fæddist 1944 og lék á sínum tíma á fjórða hundrað deildaleiki með Grimsby og Lincoln í neðri deildunum á Englandi. Þegar hann lagði skóna á hilluna sem leikmaður Lincoln árið 1972 vegna meiðsla, aðeins 28 ára gamall, tók hann við sem knattspyrnustjóri félagsins og stýrði því í fimm ár, til 1977 þegar liðið vann D-deildina undir hans stjórn.

Þá tók hann við Watford og þar átti sér stað mikið ævintýri. Á aðeins fimm árum fór hann með Watford úr D-deildinni upp í efstu deild og þar endað liðið í öðru sæti árið 1983 og lék til úrslita í bikarkeppninni árið eftir.

Taylor  tók við Aston Villa 1987, eftir að liðið hafði fallið úr efstu deild, og fór með það beint upp á ný. Aston Villa hafnaði í öðru sæti efstu deildar undir hans stjórn vorið 1990.

Þá um sumarið, eftir heimsmeistaramótið á Ítalíu þar sem enska landsliðið komst í undanúrslit, tók hann við sem landsliðsþjálfari. Hann var með enska liðið á EM í Svíþjóð árið 1992, þar sem liðið náði ekki að komast áfram úr riðlakeppninni, og eftir að Englendingum mistókst að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í Bandaríkjunum sagði hann af sér í nóvember 1993.

Eftir það stýrði Taylor Wolves tímabilið 1994-95, fór aftur til Watford 1996 og var þar í fimm ár að þessu sinni og var síðast með Aston Villa tímabilið 2002-2003.

Taylor gerðist stjórnarformaður Watford árið 2009 og gegndi því embætti til 2012 og var eftir það heiðursforseti félagsins til æviloka. Hann starfaði síðustu árin sem sérfræðingur hjá BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert