Risastór leikmannakapall í uppsiglingu?

Antoine Griezmann.
Antoine Griezmann. AFP

Breski netmiðillinn The Independent heldur því fram að miklar líkur séu á því að Frakkinn Antoine Griezmann verði seldur frá Atlético Madrid til Manchester United. Þá er talið að þau félagaskipti muni koma hreyfingu á Diego Costa sem er úti í kuldanum hjá Chelsea í augnablikinu. 

Talið er að spænska liðið muni stórgræða á Griezmann sem keyptur var frá Real Sociedad. Samkvæmt frétt Independent er United tilbúið að greiða gríðarlega háa fjárhæð fyrir franska sóknarmanninn, jafnvel upp undir 100 milljónir punda. Í fréttinni er sagt að bæði séu heimildarmenn í Madrid og Manchester á bak við fréttina og er búist við því að salan fari fram í sumar. 

Ef spænska félagið hefur úr miklum fjármunum að spila er talið að Madridarliðið myndi þá gjarnan vilja endurheimta Diego Costa sem fór á kostum hjá liðinu áður en hann hélt til Chelsea. Talið er að Barcelona gæti einnig haft áhuga á Costa til þess að minnka álagið á Messi og Suarez næstu árin. 

Costa æfði ekki með Chelsea-liðinu í vikunni og birtust af því ljósmyndir í breskum blöðum þar sem hann æfði einn síns liðs. Costa hefur ekki farið leynt með að hann sakni lífsins á Spáni og ætti því að vera opinn fyrir því að snúa aftur til Madridar. Sá möguleiki er hins vegar í stöðunni að einhver félög geri Chelsea tilboð í Costa í þessum mánuði en samkvæmt Independent hefur Chelsea ekki áhuga á því að selja Costa á miðju tímabili. 

Diego Costa.
Diego Costa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert