Sektaður um 5,5 milljónir

Bacary Sagna.
Bacary Sagna. AFP

Franski varnarmaðurinn Bacary Sagna, leikmaður Manchester City, hugsar sig eflaust  tvisvar um áður en hann skrifar aftur ummæli um dómara á samfélagsmiðil.

Enska knattspyrnusambandið hefur sektað Sagna um 40 þúsund pund, andvirði 5,5 milljóna íslenskra króna, fyrir að skrifa á Instagram: „10 gegn 12... en samt börðumst við og unnum sem lið,“ eftir sigurleik City gegn Burnley, 2:1, í byrjun mánaðarins.

Fernandinho, miðjumaður City, var rekinn af velli eftir hálftíma leik fyrir að brjóta gróflega á Jóhanni Berg Guðmundssyni, leikmanni Burnley. Leikmenn City voru ennfremur pirraðir yfir því að mark Burnley í leiknum hefði ekki verið dæmt af því að þeir töldu að brotið hefði verið á Claudio Bravo markverði.

Enska knattspyrnusambandið er með skýrar reglur varðandi ummæli á samfélagsmiðlum og leikmönnum er óheimilt að véfengja heiðarleika dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert