Klopp þorir ekki að nota Matip

Joel Matip, til vinstri, í leik með Liverpool gegn West …
Joel Matip, til vinstri, í leik með Liverpool gegn West Ham. AFP

Kamerúnski varnarmaðurinn Joel Matip verður ekki með Liverpool í kvöld þegar liðið sækir Plymouth Argyle heim í 3. umferð ensku bikarkeppninnar þar sem Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool þorir ekki að tefla honum fram.

Matip neitaði að spila með Kamerún í úrslitakeppni Afríkumótsins sem nú stendur yfir í Gabon, eftir að hafa verið valinn í undirbúningshóp fyrir keppnina. Þar með þarf knattspyrnusamband Kamerúns að gefa Liverpool heimild til að nota hann á meðan keppnin stendur yfir og það hefur ekki borist.

Klopp kvaðst til að byrja með ætla að nota Matip, hvað sem hver segið, en hefur nú ákveðið að vera ekki með hann í sínum hópi. Haft hefur verið eftir Klopp að FIFA muni ákveð á föstudaginn hvort nauðsynlegt verði að rannsaka málið sértaklega.

Gefi Kamerún ekki leyfi gæti Matip misst af sex til átta leikjum, eftir þvi hve langt þjóð hans nær í úrslitakeppninni í Gabon. Fari Kamerún alla leið í úrslitaleikinn gæti hann ekki spilað með Liverpool fyrr en 11. febrúar, gegn Tottenham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert