Memphis á leið til Lyon

Memphis Depay er á förum frá United.
Memphis Depay er á förum frá United. AFP

Líklegt er talið að Hollendingurinn Memphis Depay gangi til liðs við franska knattspyrnufélagið Lyon á næstunni en félagið á í viðræðum við Manchester United um kaupverð.

Lyon hefur þegar lagt fram þrjú tilboð en það nýjasta hljóðaði upp á 14,8 milljónir punda, samkvæmt frétt BBC. United hefur ekki enn samþykkt tilboð en forráðamenn Lyon eru vongóðir um að samningur verði í höfn fljótlega.

José Mourinho, knattspyrnustjóri United, hefur tjáð Memphis að honum sé frjálst að fara fyrir rétt verð. Everton hefur áhuga á kappanum en hann er sagður vilja frekar fara úr ensku úrvalsdeildinni.

Memphis kom til United frá PSV Eindhoven fyrir 31 milljón punda árið 2015, en heildarupphæðin mun reyndar hafa verið háð ákveðnum skilyrðum sem hafa ekki öll verið uppfyllt. Hollendingurinn hefur leikið átta leiki á tímabilinu en aðeins átta mínútur frá því í lok október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert