Bravo fær á sig tvöfalt fleiri mörk en hann ætti að fá

Claudio Bravo fékk á sig fjögur mörk gegn Everton um …
Claudio Bravo fékk á sig fjögur mörk gegn Everton um helgina en hér er boltinn að fara í markið eftir skot Kevin Mirallas. AFP

Claudio Bravo, markvörður Manchester City, hefur fengið á sig tvöfalt fleiri mörk en hann ætti að hafa fengið á sig í síðustu átta leikjum enska knattspyrnuliðsins.

Mikið hefur verið rætt og ritað um frammistöðu Bravo í vetur, eftir að Pep Guardiola ákvað að láta enska landsliðsmarkvörðinn Joe Hart fara og kaupa þess í stað Bravo fyrir 15,4 milljónir punda. Bravo hefur þótt standa sig illa en BBC leitaði til tölfræðiveitunnar Opta til að fá skýrari mynd af því nákvæmlega hvernig Bravo hefði staðið sig í vetur.

Bravo hefur fengið á sig 23 mörk úr 57 skotum sem hitt hafa á mark City í vetur. Opta notar söguleg gögn um rúmlega 250.000 skot, með upplýsingum um fjarlægð frá marki, skotvinkil og það hvar boltinn fer á markið, til að meta það hvenær búast megi við að mark sé skorað og hve líklegt sé að markvörður verji.

Gögn Opta sýna glögglega að Bravo ætti að hafa staðið sig betur. Samkvæmt þeim væri eðlilegt að Bravo hefði fengið á sig 16 mörk í vetur, en ekki 23. Þá ætti hann að hafa fengið á sig 7,33 mörk í síðustu átta leikjum, en ekki 14 mörk úr aðeins 22 skotum eins og raunin er.

Þegar horft er til heildarframmistöðu á leiktíðinni er Bravo í 20. sæti af þeim 23 markvörðum ensku úrvalsdeildarinnar sem mest hafa haft að gera í vetur. Aðeins Lukasz Fabianski hjá Swansea, Ron-Robert Zieler hjá Leicester og David Marshall hjá Hull hafa staðið sig verr, samkvæmt gögnum Opta.

Tom Heaton hjá Burnley hefur staðið sig best. Hann hefur fengið á sig 27 mörk en ætti að hafa fengið á sig 31,9. Eldin Jakupovic hjá Hull kemur næstur, en hann hefur fengið á sig 8 mörk í stað 11,2. Hugo Lloris er í 3. sæti, Petr Cech í 4. sæti og Kasper Schmeichel í 5. sæti. David de Gea hefur fengið á sig einu marki færra en hann ætti að hafa fengið, en Simon Mignolet einu marki fleiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert