Brugghús og hægt að sjá inn í leikmannagöngin

Tottenham-menn kveðja bráðum White Hart Lane.
Tottenham-menn kveðja bráðum White Hart Lane. AFP

Tottenham ætlar að hafa sitt eigið brugghús á nýjum leikvangi sem verður heimavöllur liðsins frá og með tímabilinu 2018-19.

Tottenham greindi í dag frá nokkrum hugmynda sinna varðandi leikvanginn en félagið er staðráðið í því að skapa gott andrúmsloft á vellinum. Það þykir ekki hafa tekist alveg nægilega vel hjá tveimur öðrum Lundúnafélögum, Arsenal og West Ham, sem hafa skipt um heimavöll.

Tottenham ætlar að hafa eina stúku vallarins með 17.000 sætum, sem gerir hana þá stærstu í Bretlandi, og eru þar með „gula vegginn“, sem stuðningsmenn Dortmund í Þýskalandi mynda, í huga. Fremstu sætin í þeirri stúku verða innan við sex metra frá vellinum, og fremstu sæti á vellinum verða hvergi lengra en átta metra frá vellinum.

Brugghúsið á vellinum mun geta séð stuðningsmönnum fyrir 10.000 bjórum á mínútu á leikdögum, og á leikvanginum verður 86,8 metra langur bar, sá lengsti á leikvöngum Bretlands.

Þá hefur verið ákveðið að gera fólki kleift að borga fyrir að fá að fylgjast með leikmönnum í leikmannagöngunum svokölluðu, sem þeir fara í gegnum fyrir og eftir leik, og í hálfleik. Verða göngin að hluta til gerð úr gleri þannig að þeir stuðningsmenn sem tilbúnir eru að greiða 9.000 pund fyrir ársmiða, geti horft í gegn.

„Þetta er hættulegt því það gerist margt í göngunum,“ sagði Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham. „Þess vegna verður þetta að vera dýrt. Ég get ekki sagt ykkur hvað gerist þar. Þið verðið að kaupa ykkur sæti!“ sagði Pochettino.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert