Man. City keypti 13 ára leikmann

Pep Guardiola er ekkert að fara að tefla Finley Burns …
Pep Guardiola er ekkert að fara að tefla Finley Burns fram á næstunni. AFP

Manchester City hefur greitt 175.000 pund, jafnvirði um 25 milljóna króna, fyrir aðeins 13 ára gamlan leikmann sem félagið fær frá Southend.

Breska blaðið The Times greinir frá þessu. Leikmaðurinn heitir Finley Burns og er samkvæmt blaðinu þar með orðinn dýrasti leikmaður síns aldurshóps. Upphæðin gæti hækkað upp í 250.000 pund ef Burns vinnur sér einhvern tímann sæti í aðalliði City.

City hefur lengi unnið að því að tryggja sér Burns sem talinn er afskaplega efnilegur. Burns kom til Southend 9 ára gamall og samkvæmt reglum ætti Southend aðeins rétt á 34.000 pundum fyrir að missa svo ungan leikmann.

Fjöldi félaga hefur fylgst með Burns, þar á meðal Arsenal og Chelsea, og Liverpool mun hafa boðið svipaða upphæð og City í leikmanninn.

City hefur síðustu ár unnið í því að fá til sín mjög unga og efnilega leikmenn. Til að mynda greiddi félagið 500.000 pund fyrir hinn 14 ára Jadon Sancho frá Watford árið 2015, og 200.000 pund fyrir hinn 14 ára Brahim Diaz 2014.

Southend setti klásúlu í samninginn við City sem tryggir félaginu hluta af söluverðinu við næstu sölu á Burns. Burns mun samkvæmt reglum í Englandi geta skrifað undir sinn fyrsta atvinnumannasamning þegar hann verður 17 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert