Rooney bjargaði stigi fyrir Man.Utd

Manchester United gerði 1:1-jafntefli þegar liðið mætti Stoke City í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag. Juan Mata varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark, en Wayne Rooney bjargaði stigi fyrir Manchester United með marki á lokaandartökum leiksins. 

Manchester United nálgaðist Tottenham Hotspur, Liverpool og Arsenal, sem sitja í öðru til fjórða sæti deildarinnar, sem ásamt fyrsta sæti deildarinnar veita þátttökurétti í Meistaradeild Evrópu eitt hænufet með þessu stigi.

Wayne Rooney varð með marki sínu í dag markahæsti leikmaður í sögu Manchester United, en markið var 250. mark hans fyrir félagið og hefur hann þar með skotið Sir Bobby Charlton ref fyrir rass. Það eru tæp 13 ár síðan Rooney braut ísinn fyrir Manchester United, en þá skoraði hann þrennu fyrir liðið í sigri gegn tyrkneska liðinu Fenerbache í Meistaradeild Evrópu.  

Manchester United hefur 41 stig og er þremur stigum á eftir Arsenal og fjórum stigum á eftir Tottenham Hotspur og Liverpool. Þá eiga Tottenham Hotspur og Arsenal leik til góða á Manchester United, en Tottenham Hotspur mætir Manchester City seinna í dag og Arsenal mætir Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum hans hjá Burnley á morgun. 

Stoke City siglir lygnan sjó um miðja deild, en liðið situr í níunda sæti deildarinnar með 28 stig og er 12 stigum frá fallsæti og 14 stigum frá sæti sem veitir þátttökurétt í Evrópukeppni. 

Andy Carroll skoraði tvö marka West Ham United sem lagði Middlesbrough að velli, 3:1, en
Jonathan
Calleri bætti síðan við þriðja marki West Ham United. Cristian Stuani hafði þar áður jafnað metin fyrir Middlesbrough.

West Ham United jafnaði Stoke City að stigum með þessum sigri, en síðarnefnda liðið er sæti ofar sökum hagstæðari markatölu. Middlesbrough er hins vegar í seilingarfjarlægð frá fallsvæðinu, en liðið situr í 16. sæti deildarinnar með 20 stig og er fjórum stigum frá fallsæti.

Seamus Coleman var hetja Everton, en hann tryggði Everton 1:0-sigur gegn Crystal Palace með marki sínu undir lok leiksins. Everton nálgast Manchester City sem situr í fimmta sæti deildarinnar sem veitir þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

Everton er í sjöunda sæti deildarinnar með 36 stig og er sex stigum á eftir Manchester City sem er tveimur sætum ofar. Manchester City getur aukið forskotið með stigi eða stigum þegar liðið mætir Tottenham Hotspur í dag.

Crystal Palace er í fallsæti eftir leiki dagsins, en liðið hefur 16 stig líkt og Hull City. Crystal Palace er tveimur stigum á eftir Swansea City sem komst úr fallsæti með fræknum sigri gegn Liverpool í hádeginu í dag.

West Bromwich Albion vann þægilegan 2:0-sigur gegn lánlausu liði Sunderland. Darren Fletcher skorði fyrra mark West Bromwich Albion með glæsilegu skoti utan vítateigs og Chris Brunt bætti síðan öðru marki liðsins við.   

West Bromwich Albion er í áttunda sæti deildarinnar með 32 stig og getur farið að eygja veika von um sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. Sunderland er hins vegar í slæmri stöðu með 15 stig á botni deildarinnar. 

Bournemouth og Watford skildu síðan jöfn, 2:2, í fjörugum og skemmtilegum leik. Watford komst í tvígang yfir í leiknum með mörkum Christian Kabasele og Troy Deeney. Joshua King og Benik Afobe jöfnuðu hins vegar metin tvívegis fyrir Bournemouth. Þar við sat og niðurstaðan jafntefli.

Liðin eru á svipuðum slóðum í deildinni, en Bournemouth er í 11. sæti deildarinnar með 26 stig. Watford hefur tveimur stigum minna og situr í 14. sæti deildarinnar. Falldraugurinn svífur enn yfir vötnum hjá þessum liðum, en Bournemouth er tíu stigum frá fallsæti og Watford er átta stigum frá fallsæti.  

Úrslit í leikjum dagsins urðu eftirfarandi:

Stoke City - Manchester United, 1:1
Juan Mata sjálfsmark 19. - Wayne Rooney 90. 
Bournemouth - Watford, 2:2
Joshua King 49., Benik Afobe 82 - Christian Kabasele 24., Troy Deeney 64.  
Middlesbrough - West Ham United, 1:3
Cristian Stuani 27.- Andy Carroll 9., 43., Jonathan Calleri 90.  
West Bromwich Albion - Sunderland, 2:0
Darren Fletcher 30., Chris Brunt 36. 
Crystal Palace - Everton, 0:1
Seamus Coleman 87. 

90. MAAARK. Middlesbrough - West Ham United, 1:3. Jonathan Calleri gulltryggir sigur West Ham United með þriðja marki liðsins. 

90. MAAARK. Stoke City - Manchester United. Wayne Rooney skorar með stórglæsilegu skoti frá vítateigshorninu á vítateig Stoke City. Skot Rooney fer í fallegum boga í fjærhornið og enski landsliðsframherjinn er að öllum líkindum að tryggja Manchester United stig. Rooney er þar af leiðandi orðinn markahæsti leikmaður í sögu Manchester United með 250 mörk. 

87. MAAARK. Crystal Palace, 0:1. Seamus Coleman gæti verið að tryggja Everton stigin þrjú með marki sínu undir lok leiksins. Coleman skorar með föstu skoti af vítateigshorninu sem fer ofarlega í nærhornið á marki Crystal Palace. 

82. MAAARK. Bournemouth - Watford, 2:2. Mesta fjörið er á Vitality Stadium þessa stundina, en Benik Afobe var að jafna metin fyrir Bournemouth sem hefur þar af leiðandi tvívegis komið til baka í leiknum. 

64. MAAARK. Bournemouth - Watford, 1:2. Troy Deeney kemur Watford yfir á nýjan leik þegar hann skorar með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu. Þetta er 101. deildarmark Deeney. 

49. MAAARK. Bournemouth - Watford, 1:1. Joshua King jafnar metin fyrir Bournemouth með skoti af stuttu færi eftir frábæran undirbúning hjá Adam Smith, hægri bakverði Bournemouth. Smith leikur upp hægri kantinn, klobbar Abdoulaye Doucoure, leikmann Watford, leikur á annan varnarmann Watford og sendir svo hárnákvæma fyrirgjöf á King sem getur varla annað en skorað. 

46. Seinni hálfleikur er hafinn í leikjum dagsins. 

45. Hálfleikur í leikjum dagsins. 

43. MAAARK. Middlesbrough - West Ham United, 1:2. Andy Carroll skorar annað mark sitt í leiknum og kemur West Ham United yfir á nýjan leik. Carroll fylgir efir föstu skoti Michail Antonio sem Victor Valdes varði beint út í vítateig Middlesbrough og skoraði með skoti í autt markið. 

36. MAAARK. West Bromwich Albion - Sunderland, 2:0. Chris Brunt tvöfaldar forystu West Bromwich Albion þegar hann fylgir eftir skoti Naver Chadli sem hafnaði í þverslánni og skorar með föstu og hnitmiðuðu skoti. 

30. MAAARK. West Bromwich Albion - Sunderland, 1:0. Darren Fletcher kemur West Bromwich Albion yfir með glæsilegu marki. Fletcher fær boltann utan vítateigs Sunderland eftir hornspyrnu. Fletcher tekur boltann á kassann og skorar með góðu skoti á lofti sem hafnar í fjærhorninu á marki Sunderland.  

27. MAAARK. Middlesbrough - West Ham United, 1:1. Cristian Stuani jafnar metin fyrir Middlesbrough eftir laglegt samspil hjá leikmönnum liðsins. Boltinn endaði hjá Calum Chamber eftir góða samvinnu Álvaro Negredo og Adama Traore. Chambers sendi boltann fyrir á Stuani sem skilaði boltanum í netið.

24. MAAARK. Bournemouth - Watford, 0:1. Christian Kabasele kemur Watford yfir með skoti af stuttu færi eftir að Miguel Britos skallaði boltann fyrir fætur hans eftir hornspyrnu.  

19. MAAARK. Stoke City - Manchester United, 1:0. Óvænt tíðindi á bet365 Stadium þar sem Juan Mata varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og koma Stoke City yfir. 

9. MAAARK. Middlesbrough - West Ham United, 0:1. Andy Carroll kemur West Ham United yfir og það þarf ekki að koma mikið á óvart að markið hjá Carroll kom með föstum skalla af stuttu færi. 

1. Leikir dagsins eru hafnir. 

Byrjunarlið Stoke City: Grant - Johnson, Shawcross, M. Indi, Pieters - Adam, Whelan - Shaqiri, Allen, Arnautovic - Crouch. 

Byrjunarlið Manchester United: De Gea - Valencia, Jones, Smalling, Blind - Fellaini, Herrera - Pogba, Mata, Mkhitaryan - Ibrahimovic.

Byrjunarlið Bournemouth: Boruc - Daniels, Cook, Smith, Mings - Fraser, King - Stanislas, Surman, Wilshere - Wilson.

Byrjunarlið Watford: Gomes - Kaboul, Prödl, Britos - Kabasele, Cleverley, Doucouré, Capoue, Holebas - Deeney, Okaka. 

Byrjunarlið Crystal Palace: Hennessey - Tomkins, Delaney, Dann, Ward - Puncheon, McArthur, Cabaye - Rémy, Benteke, Shlupp.

Byrjunarlið Everton: Robles -Holgate, Ashley Williams, Funes Mori, Coleman - Davies, Barry, Barkley - Baines, Lukaku Mirallas.

Byrjunarlið Middlesbrough: Valdes - Chambers, Bernardo, Gibson, Friend - Clayton, Forshaw, De Roon - Traore, Stuani, Negredo

Byrjunarlið West Ham United: Randolph - Byram, Reid, Obiang, Cresswell - Noble, Ogbonna - Feghouli, Lanzini, Antonio - Carroll

Byrjunarlið West Bromwich Albion: Foster - Dawson, McAuley, Nyom, Brunt - Yacob, Fletcher - Chadli, Morrison, Phillips - Rondon.  

Byrjunarlið Sunderland: Mannone - Jones, Van Aanholt, Djilobodji, O'Shea - Denayer, Rodwell, Larsson - Januzaj, Honeyman, Defoe.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert