Gylfi tryggði Swansea sigur gegn Liverpool

Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Swansea City afar mikilvægan 3:2-sigur þegar liðið mætti Liverpool í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Anfield í dag. Swansea City komst upp úr fallsæti með þessum sigri, en Liverpool missti af stigum í toppbaráttunni. 

Eftir bragðdaufan fyrri hálfleik sem var markalaus fóru hlutirnir að gerast í þeim seinni. Skyndilega var Swansea City komið tveimur mörkum yfir eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik með tveimur mörkum frá Fernando Llorente með fjögurra mínútna millibili.

Roberto Firmino jafnaði síðan metin fyrir Liverpool með tveimur mörkum sínum um miðbik seinni hálfleiks. Seinna mark Firmino var algert augnayndi, en brasilíski sóknarmaðurinn tók einkar vel á móti boltanum með kassanum og skoraði svo með glæsilegu skoti á lofti.

Það var hins vegar Gylfi Þór Sigurðsson sem reyndist hetja Swansea City þegar hann skoraði sigurmark liðsins þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Gylfi Þór var þá réttur maður á réttum stað á fjærstönginni og skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið.

Þetta var sjötta mark Gylfa Þórs fyrir Swansea City í deildinni á yfirstandandi leiktíð, en hann hefur þar að auki lagt upp sex mörk fyrir samherja sína. Þetta var fyrsti sigur Swansea City í sögunni á Anfield. 

Mörk Gylfa Þórs hafa hjálpað liðinu að næla sér í ellefu af þeim átján stigum sem liðinu hefur tekist að innbyrða í deildinni í vetur. Það má því með sanni segja að Gylfi Þór sé að reynast liðinu happadrjúgur í harðri fallbaráttu liðsins. 

Liverpool hafði ekki beðið ósigur á heimavelli sínum, Anfield, í 17 leikjum fyrir leikinn í dag, en liðið hafði haft betur í ellefu af þessum leikjum og gert jafntefli í sex þeirra. 

Swansea City komst upp fyrir Sunderland, Hull City og Crystal Palace með þessum sigri, en liðið situr í 17. sæti deildarinnar með 18 stig og er tveimur stigum frá fallsæti eins og sakir standa. 

Liverpool er hins vegar í þriðja sæti deildarinnar með 45 stig og er nú sjö stigum á eftir Chelsea sem trónir á toppi deildarinnar. Chelsea á auk þess leik til góða á Liverpool og getur aukið forskotið í tíu stig með sigri gegn Hull City síðdegis á morgun. 

90. Leik lokið með 3:2 sigri Swansea City.  

90. Skipting hjá Liverpool. Georginio Wijnaldum fer af velli og Joel Matip kemur inn á. 

90. Skipting hjá Swansea City. Leroy Fer fer af velli og Jay Fulton kemur inn á. 

90. Leroy Fer, leikmaður Swansea City, er áminntur með gulu spjaldi. 

86. Adam Lallana með skot sem hafnar í þverslánni á marki Swansea City og skallar boltann skömmu síðar yfir mark Swansea City af stuttu færi. 

85. Skipting hjá Swansea City. Fernando Llorente fer af velli og Borja Baston kemur inn á. 

81. Dejan Lovren með fínt skot utan vítateigs Swansea City sem Lukasz Fabianski ver vel. 

79. Skipting hjá Swansea City. Martin Olsson fer af velli og Angel Rangel kemur inn á. 

74. MAAARK. Liverpool - Swansea City, 2:3. Gylfi Þór Sigurðsson kemur Swansea City yfir á nýjan leik þegar hann fær boltann á fjærstönginni og skorar með góðu og hnitmiðuðu skoti með vinstri fæti sem hafnar í fjærhorninu á marki Liverpool. Þetta er sjötta mark Gylfa Þórs fyrir Swansea City í deildinni í vetur. 

71. Skipting hjá Liverpool. Emre Can fer af velli og Divock Origi kemur inn á. 

69. MAAARK. Liverpool - Swansea City, 2:2. Roberto Firmino jafnar metin fyrir Liverpool með stórglæsilegu marki. Firmino fær nokkuð erfiða sendingu frá Georginio Wijnaldum sem hafði komið sér í góða stöðu með laglegri snertingu. Firmino tekur afar vel á móti boltanum með kassanum og skorar síðan með föstu skoti á lofti sem hafnar í fjærhorninu á marki Swansea City. 

57. Skipting hjá Liverpool. Philippe Coutinho fer af velli og Daniel Sturridge kemur inn á. 

55. MAAARK. Liverpool - Swansea City, 1:2. Liverpool minnkar muninn með svipuðu marki og seinna mark Llorente. James Milner sendir góða fyrirgjöf inn á vítateig Swansea City og Roberto Firmino hefur betur í skallaeinvígi sínu við Martin Olsson og skallar boltann laglega í fjærhornið á marki Swansea City. Frábær byrjun á seinni hálfleik. 

52. MAAARK. Liverpool - Swansea City, 0:2. Fernando Llorente skorar annað mark sitt á skömmum tíma og tvöfaldar forystu Swansea City. Llorente fær frábæra fyrirgjöf frá Martin Olsson sem leikur sinn fyrsta leik fyrir Swansea City í dag eftir að hafa verið keyptur frá Norwich City í vikunni. Llorente stangar fyrirgjöf Olsson í netið. 

48. MAAARK. Liverpool - Swansea City, 0:1. Fernando Llorente kemur Swansea City yfir með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar. Draumabyrjun á seinni hálfleiknum fyrir Swansea City. 

46. Seinni hálfleikur er hafinn á Anfield. 

45. Háfleikur á Anfield. Staðan er markalaus í hálfleik. 

36. Ragnar Klavan, leikmaður Liverpool, er áminntur með gulu spjaldi fyrir brot. 

19. Tom Carroll, sem leikur sinn fyrsta leik fyrir Swansea City eftir að hafa verið keyptur frá Tottenham Hotspur í vikunni, kemst i góða stöðu eftir snotra sendingu frá Gylfa Þór. Dejan Lovren kemst fyrir fyrirgjöf Carroll og boltinn fer í stöngina á marki Liverpool og þaðan aftur fyrir endamörk. 

16. Adam Lallana með laglega hjólhestaspyrnu eftir sendingu frá Roberto Firmino, en skot Lallana fer yfir mark Swansea City. 

8. Emre Can fær fyrsta færi leiksins, en skalli hans í góðu færi fer fram hjá marki Swansea City. 

1. Leikurinn er hafinn á Anfield. 

Byrjunarlið Liverpool: Mignolet - Clyne, Lovren, Klavan, Milner - Can, Henderson, Wijnaldum - Lallana, Coutinho, Firmino.

Byrjunarlið Swansea City: Fabianski - Naughton, Mawson, Fernandez, Olsson - Cork, Carroll, Fer - Gylfi Þór Sigurðsson, Routledge, Llorente.

Liverpool er fyrir leik liðanna í þriðja sæti deildarinnar með 45 stig, en Swansea City situr aftur á móti á botni deildarinnar með 15 stig.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert