Tottenham náði jafntefli gegn Man City

Nicolas Otamendi í baráttu við Dele Alli.
Nicolas Otamendi í baráttu við Dele Alli. AFP

Manchester City og Tottenham gerðu jafntefli, 2:2, þegar liðin mættust í síðdegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Eftir markalausan fyrri hálfleik þar sem City var sterkari aðilinn var ísinn brotinn snemma í þeim síðari. Leroy Sane skoraði þá eftir skógarhlaup Hugo Lloris í marki Tottenham, og Lloris gerði sig aftur sekan um slæm mistök aðeins nokkrum mínútum síðar. Hann missti þá boltann úr höndum sér og fyrir fætur Kevin De Bruyne sem skoraði.

Örskömmu síðar náði Dele Alli hins vegar að minnka muninn fyrir Tottenham, og endurkoma þeirra var fullkomnuð tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar Son Heung-min jafnaði metin. Gabriel Jesus kom inná í sínum fyrsta leik fyrir City og kom boltanum í netið, en var flaggaður rangstæður. Lokatölur 2:2.

Tottenham er með 46 stig í öðru sætinu, sex stigum á eftir Chelsea, en City er í fimmta sætinu með 43 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

90. Leik lokið. Endurkoma Spurs tryggði þeim stig.

84. Mark dæmt af City! Gabriel Jesus er rétt kominn inná sem varamaður í sínum fyrsta leik fyrir City. Hann skoraði en var flaggaður rangstæður.

77. Mark! Staðan er 2:2. Það er dramatík! Son Heung-min jafnar metin fyrir Tottenham með skoti í hornið. Þetta verða spennandi lokamínútur!

58. Mark! Staðan er 2:1. Þetta er orðinn leikur á ný! Kyle Walker sendir fyrir þar sem Dele Alli skorar með skalla af stuttu færi.

53. Mark! Staðan er 2:0. Og City bætir við! Lloris virðist vera að handsama boltann í markinu, en missir hann og Kevin De Bruyne skorar. Skelfileg mistök!

49. Mark! Staðan er 1:0. City hefur brotið ísinn. Kevin de Bruyne með frábæra sendingu í gegnum vörnina, Hugo Lloris kom langt út úr markinu en missti af boltanum og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Leroy Sane.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur. City hefur verið betri aðilinn í leiknum, en markalaust ennþá.

20. City hefur fengið tvö færi á fyrstu 20 mínútunum. Fyrst var Pablo Zabaleta í góðu færi í teignum en vörn Spurs hélt vel. Svo var Nicolas Otamendi einn á auðum sjó eftir aukaspyrnu en náði ekki að gera sér mat úr því.

0. Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan.

Man City: Bravo; Zabaleta, Otamendi, Kolarov, Clichy; Toure; Sane, De Bruyne, Silva, Sterling; Aguero.

Tottenham Lloris; Dier, Alderweireld, Wimmer; Walker, Wanyama, Dembele, Eriksen, Dele Alli, Rose; Kane.

Sergio Agüero og Toby Alderweireld eigast við í leiknum.
Sergio Agüero og Toby Alderweireld eigast við í leiknum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert