Langur fundur – leikgleðina vantar

Jürgen Klopp segir sínum mönnum til í leiknum við Swansea.
Jürgen Klopp segir sínum mönnum til í leiknum við Swansea. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, saknar leikgleðinnar hjá sínum mönnum sem hafa gengið í gegnum erfiðan kafla síðustu vikurnar.

Eftir flottan endapunkt á árinu 2016 þar sem Liverpool vann fjóra síðustu leiki sína í úrvalsdeildinni, síðast Manchester City á gamlársdag, hefur liðið aðeins unnið einn leik af þeim sex sem það hefur spilað á fyrstu þremur vikunum á árinu 2017 og hann var 1:0 gegn D-deildarliðinu Plymouth Argyle.

Liðið hefur nú sigið niður í fjórða sætið og misst bæði Arsenal og Tottenham upp fyrir sig en Manchesterliðin tvö eru skammt á eftir Klopp og hans mönnum.

Klopp sagði við The Guardian að hann hefði átt langan fund með leikmönnum sínum á sunnudaginn, eftir tapið gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea á heimavelli á laugardaginn, 2:3.

„Við höfum gengið í gegnum mjög þétta leikjadagskrá um jólin og í byrjun nýs árs. Vissulega hafa allir aðrir gert það sama en fyrir leikinn við Swansea fannst mér við vera á réttri leið og ferskleikinn væri að koma aftur. En ég talaði aðallega við þá um að njóta þess að spila fótbolta.

Við erum Liverpool, gott fótboltalið sem spilar boltanum vel, og samt njóta menn þess ekki sem þeir eru að gera. Það er ekki eins og við séum á botni deildarinnar og þurfum að verjast í 80-90 prósent af hverjum leik. Í flestum okkar leikjum ráðum við ferðinni og við verðum að njóta þess, jafnvel þótt við séum ekki búnir að skora eftir fimm mínútur.“

Hann sagði að varnarleikur liðsins að undanförnu hefði verið ræddur á fundinum. „Við skoruðum tvö mörk, sem átti að vera nóg til að vinna leikinn, en varnarleikurinn þarf að batna. Mörkin sem við höfum fengið á okkur á árinu 2017 hafa verið ódýr. Við höfum til dæmis verið of veikir gegn löngum innköstum og við ræddum það,“ sagði Klopp.

Liverpool á fram undan þrjá leiki á sjö dögum, alla á heimavelli. Á miðvikudagskvöld er seinni undanúrslitaleikur deildabikarsins gegn Southampton, en liðið lék illa í þeim fyrri og var heppið að sleppa með 1:0 tap. Á laugardag tekur Liverpool á móti Jóni Daða Böðvarssyni og samherjum hans í Wolves í 4. umferð enska bikarsins, og strax á þriðjudeginum 31. janúar kemur topplið Chelsea í heimsókn á Anfield.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert