Liverpool lánar Hull leikmann

Lazar Markovic var keyptur til Liverpool í stjórnartíð Brendan Rodgers.
Lazar Markovic var keyptur til Liverpool í stjórnartíð Brendan Rodgers.

Liverpool hefur lánað Hull City serbneska leikmanninn Lazar Markovic og mun hann spila með Hull til loka þessarar leiktíðar.

Markovic, sem er 22 ára gamall, hefur verið að láni hjá Sporting Lissabon í Portúgal í vetur en félögin voru sammála um að þeirri lánsdvöl skyldi ljúka nú.

Markovic kom til Liverpool frá Benfica fyrir 20 milljónir punda sumarið 2014. Hann var hjá Fenerbahce á síðustu leiktíð en tókst ekki að vinna sér inn sæti í Liverpool-hópnum í sumar.

Hull seldi Jake Livermore til WBA fyrir 10 milljónir punda í síðustu viku en keypti norska bakvörðinn Omar Elabdellaoui frá Olympiacos í Grikklandi.

Næsti leikur Hull er gegn Manchester United annað kvöld í undanúrslitum enska deildabikarsins. Þetta er seinni leikur liðanna en United vann þann fyrri 2:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert