Ófarir Birkis og félaga halda áfram

Birkir Bjarnason í leik með Aston Villa.
Birkir Bjarnason í leik með Aston Villa. Ljósmynd/Twitter

Ófarir Birkis Bjarnasonar og félaga hans í Aston Villa í ensku B-deildinni í knattspyrnu halda áfram en liðið tapaði í kvöld fyrir Newcastle á útivelli, 2:0.

Birkir var í byrjunarliði Aston Villa en var skipt út af á 82. mínútu en Birkir hefur verið í tapliði í öllum fimm leikjunum sem hann hefur spilað með liðinu frá því hann gekk í raðir þess í síðasta mánuði. Yoan Gouffran skoraði fyrra mark Newcastle á 42. mínútu og Henri Lansbury varð svo fyrir því óláni að skora sjálfmark á 59. mínútu.

Aston Villa hefur gengið hörmulega á árinu 2017 en liðið hefur aðeins náð að krækja í eitt stig og er með versta árangur allra liða í deildinni á árinu.

Með sigrinum komst Newcastle í toppsæti deildarinnar. Liðið er með 69 stig, stigi meira en Brighton. Aston Villa er í 17. sæti deilarinnar með 36 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert