Enginn Íslendingaleikur

Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson munu ekki mætast …
Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson munu ekki mætast með liðum sínum í byrjun mars. mbl.is/Eggert

Ekkert verður af því að Íslendingarnir tveir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu mætist laugardaginn 4. mars eins og til stóð. Þann dag mætast Swansea og Burnley, lið Gylfa Þórs Sigurðssonar og Jóhanns Berg Guðmundssonar á Liberty-leikvanginum í Swansea.

Jóhann meiddist í bikarleik Burnley og Lincoln á laugardaginn og fór af velli eftir 20 mínútna leik en við myndatöku í gær kom í ljós rifa í liðbandi í hné. Ljóst er að Jóhann missir af a.m.k. þremur leikjum í úrvalsdeildinni, gegn Hull, Swansea og Liverpool, en hann sagði við 433.is í gær að hann vonaðist til þess að geta spilað gegn Sunderland 18. mars.

Þá eru aðeins sex dagar í næsta leik íslenska landsliðsins í undankeppni heimsmeistaramótsins, gegn Kósóvó, en sá leikur fer fram í Shkokder í Albaníu föstudaginn 24. mars. Þátttaka Jóhanns í þeim leik stendur því mjög tæpt eins og staðan er í dag.

Jóhann er búinn að missa talsvert úr hjá Burnley undanfarnar vikur. Hann meiddist í leik með liðinu gegn Manchester City í lok nóvember, missti fyrir vikið af næstu fjórum leikjum, og hefur frá þeim tíma aðeins einu sinni verið í byrjunarliði Burnley í deildinni. Þar hefur hann alls misst af sex leikjum frá því í lok nóvember og þrívegis verið á varamannabekknum án þess að koma við sögu.

Þeir Gylfi og Jóhann áttust við í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar í ágúst. Swansea vann þá Burnley, 1:0, á útivelli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert