Liverpool frá Melwood til Kirkby

Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool.
Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool. AFP

Eigendur enska knattspyrnufélagsins Liverpool ætla að leggja niður hið sögufræga æfingasvæði félagsins, Melwood, þar sem liðsmenn hafa æft í rúmlega hálfa öld. Í staðinn verður byggð upp ný og glæsileg æfingaaðstaða fyrir aðalliðið í Kirkby, við hlið svæðisins þar sem barna- og unglingalið félagsins eru til húsa í dag. Æfingasvæðið í Kirkby verður stækkað verulega og áætlaður kostnaður við þær framkvæmdir eru 50 milljónir punda, á að giska 7 milljarðar króna.

Staðarblaðið, Liverpool Echo, greinir frá þessu á vefsíðu sinni nú síðdegis.

Það er að áeggjan þjálfara Liverpool, Þjóðverjans Jurgen Klopp, að aðallið félagsins flytur bækistöðvar sínar frá Melwood til Kirkby. Eigendur Liverpool, bandaríska félagið Fenwey Sports Group með John Henry í broddi fylkingar, deila þeirri sýn Klopps að farsælast sé að öll lið félagsins æfi á sama stað.  Echo telur að félagið hafi þegar náð samkomulagi við eigendur lands um kaup á stóru svæði við hlið núverandi svæðis Liverpool í Kirkby.

Stefnt er að því að aðallið Liverpool hefji æfingar á nýjum stað sumarið 2019.

Vefsíða Liverpool Echo

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert