Barcelona ætlar að krækja í Bellerin

Hector Bellerin í leik með Arsenal.
Hector Bellerin í leik með Arsenal. AFP

Spánarmeistarar Barcelona ætla að gera harða atlögu í því að fá spænska hægri bakvörðinn Hector Bellerin frá Arsenal til liðs við sig í sumar hvort sem Luis Enrique verður þjálfari liðsins eða ekki.

Börsungar hafa ekki náð að fylla skarð Dani Alves sem yfirgaf félagið eftir síðustu leiktíð og gekk til liðs við Ítalíumeistara Juventus. Sergi Roberto hefur spilað sem hægri bakvörður í Barcelona-liðinu á tímabilinu og hefur ekki spilað vel og er skemmst að minnast frammistöðu hans í 4:0 tapi Barcelona gegn Paris SG í Meistaradeildinni í síðustu viku.

Bellerin er 21 árs gamall og lék með unglingaliði Barcelona áður en hann samdi við Arsenal 2011 þar sem hann lék fyrst með unglingaliði félagsins. Bellerin var í láni hjá Watford tímabilið 2013-14 en hefur hefur verið fastamaður í Arsenal-liðinu síðustu tvö tímabil. Í nóvember á síðasta ári skrifaði hann undir nýjan samning við Lundúnaliðið og er bundinn því til ársins 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert