„Bökumaðurinn“ breytti draumi í martröð

Shaw að úða í sig bökunni á hliðarlínunni í leiknum.
Shaw að úða í sig bökunni á hliðarlínunni í leiknum. Ljósmynd/Twitter

Wayne Shaw, fyrrverandi varamarkvörður enska utandeildarliðsins Sutton United, hefur sett svartan blett á sögu félagsins og breytt bikarævintýri þess í martröð.

Þetta segir knattspyrnustjórinn Paul Doswell. Sutton komst í 16-liða úrslit enska FA-bikarsins og tapaði þar 2:0 fyrir Arsenal, en hinn 45 ára gamli Shaw sást borða böku á bekknum. Það gæti dregið dilk á eftir sér, þar sem hann er talinn hafa vitað að búið væri að veðja á að hann myndi gera nákvæmlega það.

Í kjölfarið hefur enska knattspyrnusambandið hafið rannsókn og Shaw verið rekinn frá félaginu.

„Hann fór illa að ráði sínu. Ég talaði við hann í síma og hann var hágrátandi. Við munum þurfa að sæta rannsókn og bikardraumurinn hefur snúist upp í martröð. Á meðan liðið einbeitti sér að fótboltanum þá held ég að Wayne hafi notið þess að verða hálfgerð stjarna. Liðið spilaði frábærlega gegn Arsenal, en að einhver borði böku á bekknum tók athyglina frá því,“ sagði Doswell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert