Bolasie úr leik út árið

Yannick Bolasie.
Yannick Bolasie. AFP

Yannick Bolasie, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Everton, þarf að gangast undir aðra aðgerð á hné og ljóst er hann snýr ekki inn á fótboltavöllinn fyrr en á næsta ári.

Everton keypti kantmanninn fljóta í ágúst fyrir 25 milljónir punda. Hann hóf tímabilið vel þar sem hann skoraði eitt mark og lagði upp fjögur áður en hann meiddist illa á hné eftir viðskipti við Anthony Martial, leikmann Manchester United, í leik liðanna í desember.

Bolasie gekkst undir aðgerð á hnénu og var afskrifaður það sem eftir lifir tímabilsins. Nú er komið í ljós að meiðslin reyndust meiri en haldið var í fyrstu og þarf leikmaðurinn að leggjast aftur undir hnífinn og er ekki reiknað með því að hann verði klár í endurkomu fyrr en á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert