Fer Rooney núna eða í sumar?

Wayne Rooney.
Wayne Rooney. AFP

Umboðsmaður Wayne Rooney, fyrirliða Manchester United, er í Kína þessa stundina að kanna hvort hann geti náð ákjósanlegum samningi fyrir kappann en sögusagnirnar hafa orðið sífellt háværari um brottför Rooneys.

Einnig kemur fram í fréttinni að það sé afar ólíklegt að samningsviðræður takist en félagaskiptaflugginn í Kína lokar 28. febrúar.

Rooney hefur fallið neðar í goggunarröðinni á þessari leiktíð hjá José Mourinho og hefur aðeins byrjað í þremur leikjum hjá liðinu síðast 17. desember.

Simon Stone, fréttaritari BBC, skrifar að fari Rooney ekki núna, sé nánast öruggt að hann muni yfirgefa félagið í sumar. Sú staðreynd að umboðsmaðurinn, Paul Stretford, sé í Kína þessa stundina, gefur skýrt til kynna að José Mourinho væri til í að leyfa Rooney að fara.

Mörg lið í úrvalsdeildinni hafa borið víurnar í Rooney en Bejing Guoan, sem sagt er vera uppáhalds lið kínverska forsetans, Xi, hefur verið talið líklegt þó að heimildir BBC styðji það ekki. Vegna takmarkana um fjölda erlendra leikmanna eru Jiangsu Suning og Tianjin Quanjian talin líklegust en þjálfari síðastnefnda liðsins, Fabio Canna­varo, staðfesti að einhverjar viðræður hefðu átt sér stað í gær.

Á þriðjudag sagði Mourinho að hann vissi ekki hvort að Rooney yrði á Old Trafford að viku liðinni og enn fremur ekki vitað hvaða áhrif þetta mál hefur á stöðu Rooneys fyrir úrslitaleik deildabikarsins á sunnudag gegn Southampton. Líkur á þátttöku hans í þeim leik jukust þó eftir að Henrik Mkhitaryan haltraði af velli í gær í sigri liðsins á St. Etienne í Evrópudeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert