Ranieri rekinn frá Leicester

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

Claudio Ranieri hefur verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra hjá Englandsmeisturum Leicester City en enskir fjölmiðlar greina frá þessu í kvöld, meðal annars Sky Sports og BBC.

Þessar fréttir hafa verið staðfestar af Leicester en hvorki hefur gengið né rekið hjá Englandsmeisturunum á þessu tímabili og er liðið í 17. sæti, einu stigi frá fallsæti. Á sama tíma fyrir ári var Leicester með tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar. Leicester er eina liðið í fjórum efstu deildunum á Englandi sem ekki hefur náð að skora mark á árinu 2017 og hefur tapað fimm deildarleikjum í röð og þá féll liðið úr leik í ensku bikarkeppninni um síðustu helgi þegar það tapaði fyrir C-deildarliði Millwall.

Ranieri tók við Leicester-liðinu í júlí 2015 og undir hans stjórn varð liðið Englandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins síðastliðið vor. Síðasti leikur liðsins með Ítalann við stjórnvölinn var í gærkvöld en þá tapaði liðið fyrir Sevilla á útivelli, 2:1, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Leicester tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á mánudaginn og mun aðstoðarstjórinn Craig Shakespeare stýra liðinu í þeim leik ásamt þjálfaranum Mike Stowell.

„Þetta er erfiðasta ákvörðun sem við höfum þurft að taka frá því við tókum við félaginu fyrir tæpum sjö árum en okkur er skylt að setja langtímahagsmuni félagsins umfram allt annað. Við verðum Claudio ætíð þakklát fyrir það sem hann gerði fyrir félagið,“ segir Aiyawatt Srivaddhanaprabha, varaforseti félagsins, í yfirlýsingu á vef Leicester.

Gary Lineker, fyrrverandi leikmaður Leicester og enska landsliðsins og nú sparkspekingur á BBC, er ekki ánægður með þessa ákvörðun en hann skrifaði eftirfarandi á Twitter-síðu sína.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert