Mourinho fór á kostum og mætti merktur Ranieri

José Mourinho horfir ekki sáttur á eftir Claudio Raneri.
José Mourinho horfir ekki sáttur á eftir Claudio Raneri. AFP

Knattspyrnustjórarnir í ensku úrvalsdeildinni keppast við að lýsa yfir vonbrigðum sínum varðandi brottrekstur Claudio Ranieri frá Englandsmeisturum Leicester.

José Mourinho er ekki í nokkrum einasta vafa að þetta hafi verið röng ákvörðun hjá eigendum félagsins og segir hann ákvörðunina segja margt um það hvert fótboltinn sé kominn.

Til að sýna stuðning sinn í verki mætti Mourinho klæddur í Manchester-United bol með fangamarki Claudio Ranieri, CR, prentuðu á.

Mourinho sýndi stuðning sinn í verki, með CR, fangamark Claudio …
Mourinho sýndi stuðning sinn í verki, með CR, fangamark Claudio Raneri, á brjóstkassanum. Ljósmynd/Skjáskot.

Aðspurður um Instagram-færslu sína frá því fyrr í dag sagði Mourinho: „Þetta var virðingarvottur minn til þess sem skrifaði fallegasta hlutann í sögu úrvalsdeildarinnar,” sagði Portúgalinn og bætti við.

„Hann á skilið að fá leikvanginn nefndan í höfuðið á sér. Þetta ætti að vera Claudio Raneri völlurinn.

Þetta var fallegasta saga í sögu úrvalsdeildarinnar og það fallegasta í knattspyrnusögunni,” sagði Mourinho.

„Það er erfitt að  kyngja þessu. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvernig fótboltinn er orðinn og við verðum að bregðast við. Ég var rekinn sem meistari (með Chelsea), sem var mjög neikvætt, en það er ekki neitt miðað við Claudio,” sagði Mourinho.

Sagði Mourinho enn fremur Ranieri vera að gjalda fyrir sinn eigin árangur. „Þetta er honum að kenna. Ef hann hefði endað í 12. sæti á síðustu leiktíð, sem hefði verið magnað afrek, þá væru þeir samt ennþá með hugann við fallbaráttuna og hann væri ennþá í starfinu,” sagði Mourinho.

„Hann er að gjalda fyrir sinn eiginn góða árangur. Tímabilið hófst örugglega með týpískri eiginhagsmunahyggju hinna. Menn voru að hugsa um nýja samninga, að fara, fá meiri pening. Svona er heimurinn orðinn. Sum prinsipp eru hægt og rólega að skolast út. Ég lenti í svipaðri reynslu hjá Chelsea, en það var ekkert miðað við Claudio,” sagði Mourinho.

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

Mourinho sagði enn fremur á blaðamannafundinum að drátturinn gegn Rostov væri slæmur frá öllum sjónarhornum. „Þetta er langt og erfitt og á slæmum tímapunkti,” sagði Mourinho. „Þetta var slæmur dráttur frá hvaða sjónarhorni sem er,“ sagði Mourinho.

Aðspurður um Wayne Rooney, sem gaf það út fyrr í vikunni að hann hygðist vera áfram í Manchester, segir Mourinho Rooney hafa tekið rétta ákvörðun og að hann sé ekki í nokkrum vafa um að Rooney muni taka þátt í úrslitaleik deildabikarsins um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert