„Mun haldast okkar á milli“

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

Craig Shakespeare, tímabundinn stjóri Englandsmeistara Leicester City eftir brottrekstur Ítalans Claudio Ranieri úr starfi, sagði á blaðamannafundi í dag vegna leiks liðsins gegn Liverpool á mánudag, að sögusagnir um óeiningu í búningsklefanum séu úr lausu lofti gripnar en að hann muni ekki tjá sig um allt sem honum og Ranieri fór í milli eftir brottreksturinn.

Leikmenn fóru ekki til eigandans

Ennfremur neitaði hann þeim sögusögnum að ákveðnir leikmenn liðsins hafi farið til eigandans og tjáð honum óánægju sína með störf Ranieri á tímabilinu. „Mér er ekki kunnugt um það,“ sagði Shakespeare.

Hann sagði að Ranieri hafa verið rekinn vegna slæmra úrslita undanfarið og sagði að þeir hefðu skilist við í bróðerni og að samband þeirra hafi alltaf verið gott. Spurður um samband þeirra síðustu daga og vikur en þeir eru sagðir hafa rifist í göngunum eftir ákveðinn leik sagði Shakespeare: „Þegar þú tapar fótboltaleikjum fer fólk að horfa á hluti. Eitthvað sem er ekki einu sinni til. Það veldur mér vonbrigðum að það sé verið að efast um heiðarleika okkar,“ sagði Shakespeare.

„Það hefur verið mikið talað um óeiningu innan búningsklefans en það eru einungis vangaveltur. Samband mitt við Claudio hefur alltaf verið gott. Ég talaði við hann í gærkvöldi og hann þakkaði mér fyrir stuðninginn í gegnum tíðina,“ sagði Shakespeare.

Tapaði ekki klefanum

„Ég talaði við hann í síma og hann þakkaði mér fyrir stuðninginn. Þetta var ekki stutt símtal og við skiptumst á skoðunum. Það var margt sem okkur fór í milli en það mun haldast þannig,“ sagði Shakespeare.

Spurður hvort Ranieri hafi tapað klefanum svaraði Shakespeare: „Þetta eru eintómar vangaveltur. Það var svekkelsi en hann var ekki búinn að tapa klefanum,” sagði Shakespeare.

„Þetta er mjög sorlegt. Við vitum öll að svona hlutir geta gerst í fótbolta en allir hérna hjá félaginu munu minnast hans og bera mikla virðingu fyrir því sem hann hefur afrekað,“ sagði Shakespeare og bætti því við að ástæðan fyrir brottrekstri Ranieri hafi verið slæm úrslit og frammistaða liðsins á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert