Samúðin með Leicester farin

Claudio Ranieri hefur verið rekinn frá Leicester.
Claudio Ranieri hefur verið rekinn frá Leicester. AFP

Jamie Carragher sparkspekingur á Sky Sports lét eigendur Englandsmeistara Leicester fá tevatnið sykurlaust eftir að þeir ákváðu að reka ítalska knattspyrnustjórann Claudio Ranieri. „Það munu ekki falla mörg tár annars staðar en í Leicester ef þeir falla vegna þessarar ákvörðunar,“ sagði Carragher við Sky Sports en hann hefur afar sterkar skoðanir á málinu.

Aðeins níu mánuðum eftir að Ítalinn gerði Leicester að meisturum eru eigendur félagsins búnir að reka Ranieri en liðið hefur ekki unnið í sex leikjum í röð og er 17. sæti, einu stigi frá fallsæti.

„Það voru margir sem vildu ekki að Leicester myndi falla með Ranieri sem stjóra en ég held að sú samúð sé farin núna,“ sagði Carragher sem segir þó að það sem sé í gangi hjá félaginu sé ekkert það slæmt.

„Fólk segir að það sé stórslys ef lið falla en Leicester hefur alltaf verið „jójó-klúbbur“. Þeir hafa alltaf gert þetta og það var ekkert að fara að breytast þó að þeir hefðu unnið titilinn. Við hverju bjuggust þeir þegar þeir réðu Ranieri?“ sagði Carragher.

„Ef einhver hefði spurt hvort þeir væru til í að vinna titilinn og falla síðan, þá hefði hver einasti Leicester-stuðningsmaður sagt já,“ sagði Carragher.

Carragher segir að margir leikmenn í liðinu hafi breyst eftir meistaratitilinn og segir hann að Ítalinn brottrekni hafi líklega verið eini maðurinn í klefanum sem hafi ekki breyst eftir titilinn.

„Þessir leikmenn munu aldrei vinna neitt þessu líkt aftur og ég held að eini maðurinn sem hafi ekki breyst eftir þetta hafi verið stjórinn. Sumir leikmenn breyttust. Þeir eru afar ólíkir, sumir hafa verið til umfjöllunar í lífsstílsblöðum, og hafa kannski aðeins farið fram úr sér,“ sagði Carragher.

„Síðasta tímabil var stórfurðulegt. Við elskuðum það og vildum öll sjá þá ná þessu en við vitum öll að Leicester er ekki svona gott lið. Við bjuggumst við því að gæðin myndu minnka, en ekki svona mikið. Ég er hryggur yfir þessu fyrir hans (Ranieri) hönd. Það munu margar spurningar vakna sem eigendurnir þurfa að svara sem og leikmennirnir,“ sagði Carragher sem var ekki í vafa um hvernig félagið ætti að minnast Ranieri.

„Það á að vera stytta af honum þarna. Þeir eiga að byrja á henni á morgun,“ sagði Carragher.

Jamie Carragher er ekki sáttur með ákvörðun Leicester.
Jamie Carragher er ekki sáttur með ákvörðun Leicester. Ljósmynd/Skjáskot.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert